Græn atvinnubylting um allt land!

Samfylkingin lagði í gær til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að grípa til 10 aðgerða til að fjölga störfum, örva eftirspurn og styðja við loftslagsvæna verðmætasköpun á Íslandi. Tillagan er lögð fram með tilliti til alþjóðlegra loftslagsskuldbindinga Íslands á tímum hamfarahlýnunar og í ljósi efnahagssamdráttar, sögulegs fjöldaatvinnuleysis og framleiðsluslaka vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þær aðgerðir sem Samfylkingin leggur til að verði ráðist í eru:

1. Grænn fjárfestingarsjóður.
Stofnaður verði grænn fjárfestingarsjóður í eigu hins opinbera sem styðji við loftslagsvæna atvinnuuppbyggingu og grænan hátækniiðnað. Ríkið leggi sjóðnum til 5 milljarða kr. í hlutafé. Sjóðurinn leiti eftir samstarfi við einkafjárfesta, taki mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og stefnu Vísinda- og tækniráðs í allri sinni starfsemi og ýti undir góða stjórnarhætti í félögum sem hann fjárfestir í. Umhverfisráðherra skipi í stjórn sjóðsins, m.a. eftir tilnefningu náttúruverndarsamtaka, samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda.

2. Metnaðarfyllri loftslagsmarkmið.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hafi forgöngu um að mótuð verði ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem geri ráð fyrir 60% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við árið 2005. Markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 verði fest í lög, skerpt á sjálfstæði og aðhaldshlutverki loftslagsráðs gagnvart stjórnvöldum og stjórnsýsla loftslagsmála efld.

3. Efling almenningssamgangna.
Framkvæmdum vegna borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu verði flýtt og 1,5 milljarða kr. viðbótarframlag veitt til uppbyggingar stofnleiða fyrir hjólreiðar á næsta ári. Betri samgöngum ohf. verði falið að flýta þeim framkvæmdum í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem eru mannaflafrek og skila miklum loftslagsávinningi. Jafnframt verði stutt við landsbyggðarstrætó til að gera auðveldara og ákjósanlegra að ferðast milli landshluta með strætisvagni.

4. Hröðun orkuskipta.
Ráðist verði í markvissar aðgerðir til að hraða orkuskiptum á láði og legi. Stutt verði við uppbyggingu rafhleðslustöðva um allt land með það fyrir augum að nýskráningu bensín- og dísilbíla verði hætt frá og með árinu 2025. Flutnings- og dreifikerfi rafmagns verði styrkt svo að kerfið standi undir auknu álagi, meðal annars vegna rafvæðingar hafna. Framlög til Orkusjóðs verði tvöfölduð til að styðja við kaup á vistvænum tækjum, bæði vegna iðnaðar og samgangna á landi og í skipum og haftengdri starfsemi.

5. Sterk sveitarfélög og fjárfesting í nærsamfélaginu.
Spornað verði gegn niðurskurði og uppsögnum á sveitarstjórnarstiginu með auknum stuðningi við sveitarfélög sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli vegna heimsfaraldursins. Ríkissjóður hafi milligöngu um hagstæðar lánveitingar til sveitarfélaga vegna loftslagsvænna fjárfestinga og byggða- og samfélagsþróun verði efld með 800 millj. kr. aukaframlagi til sóknaráætlana landshluta árið 2021.

6. Kolefnisbinding og bætt landnýting.
Ráðist verði í kraftmikið átak í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis. Stuðningur við landbótaverkefni frjálsra félagasamtaka verði stóraukinn og sett af stað markviss vinna við endurskoðun styrkjakerfis og skattumhverfis til að ýta undir ábyrga landnýtingu og gera bændum kleift að einbeita sér í auknum mæli að kolefnisbindingu, endurheimt votlendis og uppgræðslu á illa förnu landi.

7. Menntasókn.
Stutt verði við námstengd vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnuleitendur og fleiri með auknum framlögum til starfsmenntunar, framhaldsfræðslu, símenntunarstöðva, starfsendurhæfingar og vinnustaðanáms. Stofnaður verði Umhverfis- og garðyrkjuskóli með starfsnámi á framhaldsskólastigi að Reykjum í Ölfusi, aðgengi að tæknifræðinámi utan höfuðborgarsvæðisins verði aukið og stutt við uppbyggingu háskólaútibús á Austurlandi.

8. Uppbygging iðngarða.
Skipaður verði starfshópur um skipulega uppbyggingu iðngarða á Íslandi þar sem auðlindastraumar eru fjölnýttir og virði hreinnar orku hámarkað, svo sem til uppbyggingar í matvælaiðnaði, lífrænni eldsneytisframleiðslu, líftækni og garðyrkju. Hafist verði handa við breytingar á lögum, regluverki og leyfiskerfum til að liðka fyrir slíkri starfsemi.

9. Stuðningur við listir og menningu.
Framlög til launasjóða listamanna verði stóraukin og komið verði til móts við menningarstofnanir sem orðið hafa fyrir tekjutapi vegna samkomubanns. Endurgreiðslur á virðisaukaskatti til framleiðenda kvikmynda og sjónvarpsefnis verði hækkaðar og ráðist í markvissar aðgerðir til að gera Ísland að ákjósanlegum stað til fullvinnslu kvikmynda.

10. Stórsókn í nýsköpun og þróun.
Ráðist verði í heildstæða greiningu á því hvernig bæta megi regluverk og nýta skattalega hvata til að treysta samkeppnishæfni Íslands á sviði nýsköpunar, rannsókna og þróunar og tryggja hugverka- og hátækniiðnaði hagfelldari rekstrarskilyrði. Framlög til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs verði aukin og úrræðið Stuðnings-Kría fullfjármagnað svo að ekki þurfi að skerða mótframlagslán til nýsköpunarfyrirtækja í rekstrarvanda.

Í október kynnti Samfylkingin aðgerðaráætlunina Ábyrgu leiðina – úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar, sem felur í sér markvissar aðgerðir til að fjölga störfum, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera, létta undir með atvinnulausu fólki og fjölskyldum þeirra, stíga fastar til jarðar í loftslagsmálum og beita ríkisvaldinu af krafti til að fjárfesta í grænni uppbyggingu til að renna fjölbreyttari stoðum undir útflutning og verðmætasköpun á Íslandi. Er tilkoma þessarar þingsályktunartillögu einn áfangi í að koma þessum aðgerðum til leiðar. 

Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að við þessar fordæmalausu aðstæður stígi ríkisvaldið fram af festu og nýti fjárfestingarsvigrúmið til að styðja við vistvæna atvinnuuppbyggingu um allt land, auka framleiðslugetu þjóðarbúsins til langframa og renna nýjum stoðum undir verðmætasköpun á Íslandi. Markmiðið er að skapa verðmæt græn störf, efla innviði, auka umsvif í efnahagslífinu og tryggja að viðspyrnan eftir efnahagsáhrif heimsfaraldursins samræmist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, einkum markmiðum 13, um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, og 14, um verndun hafsins. 

Brýnt er að Ísland uppfæri hið fyrsta landsframlag sitt til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið og sé ekki eftirbátur annarra Evrópuríkja í þessum efnum.