Rósa Björk gengin til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar

„Það var mikill hvalreki fyrir Samfylkinguna þegar Rósa Björk gekk til liðs við þingflokk okkar í dag,“ sagði Logi Einarsson, formaður flokksins á Facebook-síðu sinni í dag og tilkynnti um leið um nýjan liðsmann í þingflokknum. Þar með eru þingmenn Samfylkingarinnar orðnir átta.

„Það var mikill hvalreki fyrir Samfylkinguna þegar Rósa Björk gekk til liðs við þingflokk okkar í dag,“ sagði Logi Einarsson, formaður flokksins á Facebook-síðu sinni í dag og tilkynnti um leið um nýjan liðsmann í þingflokknum. Þar með eru þingmenn Samfylkingarinnar orðnir átta. Logi sagði álit sitt á Rósu hafa vaxið stöðugt á þeim fjórum árum sem þau hafa setið á Alþingi. „Hún er án efa einn sterkasti þingmaðurinn sem á sæti á Alþingi í dag og í loftlags- og utanríkismálum standast henni fáir ef einhver snúning. Vertu velkominn til okkar kæra vinkona,“ segir Logi.

Rósa Björk studdi ekki ríkisstjórnarsamstarf núverandi stjórnarflokka í nóvember 2017. Hún sagði úr Vinstri græn­um síðastliðinn sept­em­ber og hefur verið óháður þingmaður síðan, eða þar til í dag. Rósa Björk sat sinn fyrsta þingflokksfund með Samfylkingunni í dag og sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu að honum loknum:

„Í dag gekk ég til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar en ég hef verið óháður þingmaður á Alþingi síðastliðna 3 mánuði. Pólitískar áherslur mínar og Samfylkingarinnar eru nátengdar með mikilvægi á aukinn jöfnuð í samfélaginu þar sem allir geta notið sín á eigin forsendum, burtséð frá stétt eða stöðu en líka á frið og sjálfbærni og opið, framsækið og fjölbreytt samfélag með áherslu á virka fjölþætta utanríkisstefnu. Að undanförnu hefur Samfylkingin að auki lagt mun meiri og skýrari þunga á loftlagsmálin, og umhverfismálin en áður og lagt fram góða áætlun um græna viðspyrnu út úr Covid-19 kreppunni. Það gerir útslagið fyrir mig þegar kemur að því að taka þessa ákvörðun um að ganga í Samfylkinguna og þingflokk hennar. Ég hlakka mjög mikið til að taka þátt í starfi Samfylkingarinnar og að leggja mitt á vogarskálarnar til að bæta íslenskt samfélag.“