Framboðskönnun FSR er hafin

Kjörseðill lokar 20. des. kl. 17:00
50 gefa kost á sér í framboðskönnun Samfylkingarinnar í Reykjavík sem hófst, 17. desember, kl. 17:00 og lýkur kl. 17:00 á sunnudag, 20. desember. Aðeins þeir sem eru á kjörskrá geta kosið: https://innskraning.island.is/?id=outcomesurveys.com
Þeir sem gefa kost á sér eru fjölbreytilegur hópur karla og kvenna á ýmsum aldri með allrahanda bakgrunn, menntun og reynslu, flest með mikla reynslu af ýmiss konar félags- og stjórnmálastarfi. Nöfn þeirra liggja frammi á vefsetri flokksins þar sem þeir kynna sig einnig hver um sig. Hér má finna lista af frambjóðendunum.
SAMÞYKKT FSR UM HVERNIG VALIÐ SKULI Á FRAMBOÐSLISTA SAMFYLKINGARINNAR Í REYKJAVÍKURKJÖRDÆMUNUM FYRIR ALÞINGISKOSNINGAR 2021
Stilla skal upp framboðslistum í Reykjavík fyrir Alþingiskosningarnar í september 2021 (eða fyrr) í samræmi við lög FSR og reglur Flokkstjórnar Samfylkingarinnar (grein 3.4) og í samræmi við þær reglur sem koma hér á eftir (sænska leiðin).
Gæta skal sérstaklega að því að félagar sem heyra undir aðildarfélög FSR geti komið að vali frambjóðenda.
Samkvæmt lögum FSR er stjórn FSR jafnframt uppstillinganefnd og ber henni að fara að þessum reglum.
Uppstillinganefnd er falið að setja saman sigurstranglega framboðslista vegna alþingiskosninga 2021, fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður og suður og bera þá upp fyrir Allsherjarfund FSR til samþykktar eigi síðar en 20. febrúar 2021.
Uppstillinganefnd
1) Uppstillinganefnd er framkvæmdastjórn FSR (aðal- og varamenn) ásamt fulltrúum allra félaga innan FSR í samræmi við lög FSR. Formaður FSR er formaður uppstillinganefndar.
2) Uppstillinganefnd er heimilt að kalla einstaklinga eða hópa sér til ráðuneytis.
3) Komi til ágreinings innan nefndarinnar skal meirihluti kjörinna fulltrúa uppstillinganefndar leiða hann til lykta.
Hvernig standa skal að uppstillingu
1) Kallað er eftir tilnefningum um frambjóðendur á framboðslista Samfylkingarinnar frá flokksbundnu Samfylkingarfólki í Reykjavík.
2) Haft er samband við þau sem tilnefnd eru og fengin staðfesting á vilja þeirra til þátttöku.
3) Útbúinn er listi með myndum og lágmarksupplýsingum yfir þau sem eru tilnefnd og staðfest hafa vilja sinn til þátttöku og hann sendur með rafrænum hætti til flokksfólks í Reykjavík og kallað eftir vilja flokksmanna. Könnunina skal framkvæma þannig að beðið verður um að merkja (óraðað) við allt að 10 af þeim sem tilnefndir eru.
4) Halda skal trúnað um niðurstöður einstaklinga í könnuninni og niðurstöður könnunarinnar eru ekki bindandi fyrir uppstillingarnefnd á neinn hátt. Samið verður við Outcome um að framkvæma könnunina.
5) Uppstillinganefnd fær lista í stafrófsröð yfir niðurstöðuna þar sem listinn er flokkaður á eftirfarandi hátt; þeir 5 sem fá flestar merkingar saman í hóp, næstu 5 saman í hóp o.s.frv. Nefndin tekur mið af niðurstöðum könnunarinnar í vinnu sinni en er jafnframt heimilt að bæta við nöfnum.
6) Þegar uppstillingarnefnd hefur náð saman um tillögu að þremur efstu frambjóðendum á hvorum lista er nefndinni heimilt að kalla þá einstaklinga inn í vinnu við að fullbúa listana. Frambjóðendur teljast ekki kjörnir í uppstillinganefnd og hafa ekki atkvæðisrétt við úrlausn ágreiningsmála.
7) Uppstillinganefnd skal raða listum fyrir bæði kjördæmi saman í samræmi við reglur Samfylkingarinnar um fléttulista og lög FSR
8) Uppstillingarnefnd skal skila af sér fullbúnum framboðslistum til Allsherjarfundar FSR ekki síðar en 20.febrúar 2021.
9) Allsherjarfund má halda rafrænt ef sóttvarnir eru á þann veg ekki verður mögulegt að koma á fundi í raunheimum.
10) Uppstillinganefnd er heimilt að gera hverjar þær breytingar á lista sem lög og kjörstjórnir krefja til að fullnægja kröfum um lögmæti framboðs.
Uppstillinganefnd getur breytt þessum reglum einróma ef tæknilegar ástæður krefjast