Af stað!

Rósa Björk

Árið fram undan verður fullt af krefjandi verkefnum. Alvarlegar aðstæður á vinnumarkaði og efnahagshorfurnar dökkar langt fram eftir nýju ári. Þó að bólusetningar veki okkur langþráða von í brjósti, þá er hraður efnahagsbati ekki fastur í hendi.

Þá skiptir mestu máli að vera undirbúin og ákveða hvert við ætlum og hvernig. Til að viðspyrnan verði kraftmikil og farsæl verðum við að nýta aflið í samstöðunni og samvinnunni – sem var eitt af því besta við síðasta ár.

Efnahagsleg endurreisn kemur nefnilega ekki af sjálfu sér. Við verðum að ákveða hvernig hún á að vera. COVID-19 hefur afhjúpað kosti samfélaga okkar en líka alvarlega galla. Þess vegna er ekki í boði að nýta „gömlu, góðu“ efnahagsmeðölin, heldur er einstakt tækifæri til að taka upp réttlátara og jafnara efnahagskerfi og að við sköpum heilbrigðari og grænni framtíð fyrir börnin okkar. Þau sem eru nú mest útsett fyrir ójöfnuði er fólk af erlendum uppruna, konur og ungt fólk. Tekjulægra fólkið. Tölur sanna þetta.

Þegar við byggjum upp á ný verðum við að hafa fókusinn á því hvernig við tökumst á við stöðu þessara hópa, en byggjum um leið til grænni framtíðar. Ef við byrjum strax að móta skýrar og ábyrgar undirstöður að efnahagsbatanum með sjálf bærni og loftslagsvænum leiðum, þá sköpum við ný, grænni störf, byggjum upp samfélagið með grænum aðferðum og lyftum þeim sem mest þurfa á því að halda um leið og við sköpum seiglu og þrautseigju til frambúðar.

Óréttlæti í íslensku samfélagi snýst ekki eingöngu um félagslegt eða efnahagslegt óréttlæti, heldur líka réttlætið í því að lifa, búa og starfa í raunverulega umhverfisvænu og loftslagsvænu samfélagi. Þar sem fjármunum er stýrt af festu og skýrleika í loftslagsaðgerðir og græna uppbyggingu þar sem engin eru skilin eftir. Þannig verður til heilbrigt efnahagskerfi og samfélag til frambúðar. Eftir hverju er verið að bíða? Af stað!

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. janúar 2021

Rósa Björk,
Rósa Björk Brynjólfsdóttir Þingmaður