Yfirlýsing frá stjórn Samfylkingarinnar

Samfylkingin lýsir yfir þungum áhyggjum af skotárásum á skrifstofur stjórnmálaflokka og heimili stjórnmálafólks. Tilefnið eru ítrekaðar árásir á höfuðstöðvar stjórnmálaflokka með skotvopnum, nú síðast með fjölda skota á skrifstofu Samfylkingarinnar og alvarleg árás í garð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og fjölskyldu hans. Engin dæmi eru um jafn alvarlega árás í garð stjórnmálamanns á Íslandi.

Lýðræði og frjáls skoðanaskipti eru mikil verðmæti hverju samfélagi. Við hér á Íslandi höfum vanist því að stjórnmálafólk geti gengið um án sérstakrar öryggisgæslu og að almenningur geti tekið þátt í starfi stjórnmálaflokka án þess að óttast afleiðingar. Sama hvaða stjórnmálaflokk við kjósum, þá þurfum við að vernda grunnstoðir lýðræðisins og megum ekki sætta okkur við árásir, hótanir og ógnir í garð fólks í stjórnmálum eða vegna stjórnmálaskoðana þess.