Verkafólk á Þing og sannarlegur fjölbreytileiki.

Áskorun frá Verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar.

Fjölbreytileiki kjörinna fulltrúa er falinn í fleiru en aldri og kyni. Það þarf að horfa til fleiri þátta eins og menntunar, starfsvettvangs og lífsreynslu.

Samfylkingin á að vera málsvari Verkalýðshreyfingarinnar og framboðslistar flokksins eiga að endurspegla þá stefnu. Það þarf að gæta þess að raunverulegur vilji verkafólks komi skýrt fram. Það er enginn betur til þess fallinn að tala máli verkafólks, en það sjálft. Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar skorar á uppstillingarnefndir að hafa það til hliðsjónar þegar stillt er upp á lista Samfylkingarinnar um allt land.

Það er allskonar fólk í Samfylkingunni og við eigum að sýna það bæði í orði og á borði. Eða eins og segir í stefnu flokksins: “Sem flestar ákvarðanir verði teknar beint af þeim hópum fólks sem þær varða”.

Háskólamenntun á ekki að vera krafa fyrir þingsæti hjá Samfylkingunni. Til þess að taka skynsamar ákvarðanir sem varða heildina, þurfum við að hafa heildina með í ferlinu. Kennarar, iðnaðarmenn, fiskvinnslufólk, ræstitæknar, umönnunaraðilar, matreiðslufólk og fleira verkafólk á allt heima á framboðslistum Samfylkingarinnar. Við erum Samfylking fjölbreytileikans.

Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar skorar á kjördæmaráð Samfylkingarinnar um allt land, að setja fram framboðslista sem endurspegli fjölbreytileika samfélagsins. Verkalýðsmálaráð hvetur til og leggur áherslu á að í efstu sætum í öllum kjördæmum verði verkafólk sem sannarlega á möguleika á þing- eða varaþingmannssætum.

 

Stjórn Verkalýðsmálaráðs,

Ástþór Jón Ragnheiðarson

Guðjón Viðar Guðjónsson

Guðrún Erlingsdóttir

Kristín Erna Arnardóttir

Nanna Hermannsdóttir