Frú Reykjavík

Í vikunni höfum við á vettvangi borgarstjórnar fjallað um framtíðarborgina, grænu, heilsueflandi borgina sem er sannarlega fyrir okkur öll.

Því þó að rannsóknir sýni að félagsleg tengsl séu sá þáttur sem skiptir mestu máli fyrir líðan okkar þá skapar hið manngerða umhverfi rammann utan um lífið og getur annað hvort stutt við heilsusamlegar venjur eða ekki. Hið manngerða umhverfi hefur líka sannarlega áhrif á það hvort við sem samfélag náum þeim markmiðum sem við þurfum að ná til að sporna við hamfarahlýnun og mengun sem eru fylgifiskar okkar mannfólksins.
Við samþykktum endurskoðað aðalskipulag til 2040 og sökktum okkur ofan í forhönnun Borgarlínu sem mun þræða sig í gegnum stærstu, núverandi og framtíðar, hverfi höfuðborgarsvæðisins og fram hjá stærstu vinnustöðum. Framtíðin færist nær og við höfum nú tækifæri til að skilja betur hvernig höfuðborgin okkar kemur til með að taka utan um íbúa sína og gesti í framtíðinni.
Það er ekki stefnan að vera bara smart, nútímaleg og skemmtileg því borg sem hefur bara það að markmiði nær því ekki. Nútímaborgir verða að tryggja að þær séu aðgengilegar og hannaðar fyrir fólk sem hefur mismunandi þarfir, uppruna, aldur og svo framvegis.
Nútímaborg stuðlar að félagslegum tengslum og félagslegum fjölbreytileika því það er best fyrir okkur. Þess vegna leggjum við í Samfylkingunni í Reykjavík alla áherslu á að borgin okkar verði sannarlega fyrir okkur öll. Nútímavæðing borgarinnar er á fleygiferð. Áherslan er á sjálfbærni, félagslega blöndun innan hverfa, aðgengi að daglegri verslun og þjónustu í göngufæri og nálægð við græn svæði og náttúru. Hverfi borgarinnar eru alltaf að verða mannvænni og fjölbreyttari og borgarbúar hafa áhrif á hvernig þau þróast með margvíslegum hætti.
Borgir eru lykilaðilar í að tryggja að ríki jarðarinnar nái þeim loftslagsmarkmiðum sem þau setja sér og Ísland er þar engin undantekning. Á næstu 20 árum munum við borgarbúar sjá stórkostlegar breytingar á borginni okkar þar sem viðfangsefnið er að stuðla að heilsu, öryggi og bættum lífsgæðum okkar allra um ókomna tíð. Ungfrú Reykjavík er að verða fullorðin.
Greinin birtist á frettabladid.is 19. febrúar.