Frú Reykja­vík

Heiða Björg,

Í vikunni höfum við á vett­vangi borgar­stjórnar fjallað um fram­tíðar­borgina, grænu, heilsu­eflandi borgina sem er sannar­lega fyrir okkur öll.

Heiða Björg Hilmisdóttir Borgarfulltrúi og formaður Velferðaráðs Reykjavíkurborgar

Því þó að rann­sóknir sýni að fé­lags­leg tengsl séu sá þáttur sem skiptir mestu máli fyrir líðan okkar þá skapar hið mann­gerða um­hverfi rammann utan um lífið og getur annað hvort stutt við heilsu­sam­legar venjur eða ekki. Hið mann­gerða um­hverfi hefur líka sannar­lega á­hrif á það hvort við sem sam­fé­lag náum þeim mark­miðum sem við þurfum að ná til að sporna við ham­fara­hlýnun og mengun sem eru fylgi­fiskar okkar mann­fólksins.

Við sam­þykktum endur­skoðað aðal­skipu­lag til 2040 og sökktum okkur ofan í for­hönnun Borgar­línu sem mun þræða sig í gegnum stærstu, nú­verandi og fram­tíðar, hverfi höfuð­borgar­svæðisins og fram hjá stærstu vinnu­stöðum. Fram­tíðin færist nær og við höfum nú tæki­færi til að skilja betur hvernig höfuð­borgin okkar kemur til með að taka utan um íbúa sína og gesti í fram­tíðinni.

Það er ekki stefnan að vera bara smart, nú­tíma­leg og skemmti­leg því borg sem hefur bara það að mark­miði nær því ekki. Nú­tíma­borgir verða að tryggja að þær séu að­gengi­legar og hannaðar fyrir fólk sem hefur mis­munandi þarfir, upp­runa, aldur og svo fram­vegis.

Nú­tíma­borg stuðlar að fé­lags­legum tengslum og fé­lags­legum fjöl­breyti­leika því það er best fyrir okkur. Þess vegna leggjum við í Sam­fylkingunni í Reykja­vík alla á­herslu á að borgin okkar verði sannar­lega fyrir okkur öll. Nú­tíma­væðing borgarinnar er á fleygi­ferð. Á­herslan er á sjálf­bærni, fé­lags­lega blöndun innan hverfa, að­gengi að dag­legri verslun og þjónustu í göngu­færi og ná­lægð við græn svæði og náttúru. Hverfi borgarinnar eru alltaf að verða mann­vænni og fjöl­breyttari og borgar­búar hafa á­hrif á hvernig þau þróast með marg­vís­legum hætti.

Borgir eru lykil­aðilar í að tryggja að ríki jarðarinnar nái þeim lofts­lags­mark­miðum sem þau setja sér og Ís­land er þar engin undan­tekning. Á næstu 20 árum munum við borgar­búar sjá stór­kost­legar breytingar á borginni okkar þar sem við­fangs­efnið er að stuðla að heilsu, öryggi og bættum lífs­gæðum okkar allra um ó­komna tíð. Ung­frú Reykja­vík er að verða full­orðin.

Greinin birtist á frettabladid.is 19. febrúar.