Reykjavíkurborg samþykkir markvissar atvinnuskapandi aðgerðir

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mælti fyrir tillögu um markvissar aðgerðir að hálfu Reykjavíkurborgar til að vinna gegn atvinnuleysi og auka virkni þeirra sem hafa verið án atvinnu síðustu misseri. Í fyrsta áfanga er áætlað að skapa tvöhundruð störf, einblínt verður á að ná til þeirra hópa sem þurfa að sækja sér hvers kyns bætur sökum atvinnumissis. Heildaratvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu mældist 11,9% í desember 2020. Því er um að ræða gríðarlega mikilvægar aðgerðir að hálfu borgarinnar og er átakið er liður í sókarnátaki Reykjavíkurborgar, Græna planinu, sem samþykkt í borgarstjórn á síðasta ári.

Sérstakur starfshópur var skipaður af borgarráði 19. nóv. sl. sem fékk það verkefni að móta nýtt fyrirkomulag á markvissum vinnu- og virkniaðgerðum Reykjavíkurborgar vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19.

  1. Að komið verði á fót atvinnu- og virknimiðlun sem komi virkni og vinnuaðgerðum í framkvæmd í áföngum eftir því hvernig staða á vinnumarkaði þróast á tímabilinu 2021-2022. Annars vegar er um að ræða vinnumiðlun á vegum mannauðs- og starfsumhverfissviðs og hins vegar stuðnings- og virkniúrræði á vegum velferðarsviðs.
  2. Ráðið verði í 9 stöðugildi sérfræðinga sem starfa við vinnumiðlun og við stuðningsaðgerðir.
  3. Áætlað er að fyrsti áfangi hefjist í febrúar 2021 þar sem verða sköpuð störf og stuðningsúrræði fyrir eftirfarandi hópa:
  • Atvinnulausir einstaklingar með bótarétt, 150 störf.
  • Vinnufærir einstaklingar sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og fá fjárhagsaðstoð til framfærslu, 50 störf.

Áætlað er að atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar muni í fyrsta áfanga skapa um 200 störf, meðal annars í samstarfi við Vinnumálastofnun og heildarkostnaður verði um 460 m.kr. sem greiðist af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð.

Útgjöldin skiptast þannig:

  • 255,5 m.kr. vegna vinnumarkaðsaðgerða fyrir vinnufæra einstaklinga með bótarétt úr atvinnuleysistryggingasjóði (mótframlag Reykjavíkurborgar vegna launa).
  • 101 m.kr. vegna vinnumarkaðsaðgerða fyrir vinnufæra einstaklinga án bótaréttar úr atvinnuleysistryggingasjóði (greiðsla launa að frádreginni fjárhagsaðstoð).
  • 103,5 m.kr vegna reksturs atvinnu- og virkniráðgjafar (launakostnaður, námskeið o.fl.). Í meðfylgjandi áætlun er gert ráð fyrir að fullri starfsemi frá byrjun marsmánaðar.

Tillagan var samþykkt samhljóða í borgarstjórn.

Hér má finna nánari útlistun á tillögum starfshópsins, og skiptingu útgjalda, um mótun nýs fyrirkomulags á markvissum vinnu- og virkniaðgerðum Reykjavíkurborgar vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar Covid-19.