Orðum fylgir ábyrgð

Skúli Helgason, borgarfulltrúi

Stjórn­mála­um­ræðan á heims­vísu hefur tekið miklum breyt­ingum á und­an­förnum árum og tengja það margir við til­komu sam­fé­lags­miðla sem hefur stór­aukið mögu­leika almenn­ings og kjör­inna full­trúa á að koma sínum sjón­ar­miðum á fram­færi, með góðu og illu.

Skúli Helgason Borgarfulltrúi og formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs

Lands­lagið hér á landi er gjör­breytt frá þeim tíma þegar opin­ber stjórn­mála­um­ræða í fjöl­miðlum tak­mark­að­ist að mestu við fáeina dálksenti­metra í örfáum dag­blöðum sem flest hver voru í eigu stjórn­mála­flokka og með tak­mark­aða útbreiðslu. Sam­hliða þessum breyt­ingum hefur harkan í sam­fé­lags­um­ræð­unni vaxið til mik­illa muna og á stundum þró­ast yfir í hreina hat­urs­orð­ræðu gagn­vart ein­stak­lingum og hópum í sam­fé­lag­inu og stundum í stjórn­mál­un­um. 

Við Íslend­ingar höfum gegnum tíð­ina bless­un­ar­lega verið að mestu laus við alvar­leg ofbeld­is­verk gegn kjörnum full­trú­um, þó nokkur dæmi séu um að gerður hafi verið aðsúgur að stjórn­mála­mönnum og heim­ilum þeirra t.d. í kjöl­far banka­hruns­ins. 

Skotárásir á stjórn­mála­menn og flokka

Á dög­unum var gerð skotárás á bíl í eigu Dags B. Egg­erts­sonar borg­ar­stjóra við heim­ili hans þar sem frið­helgi einka­lífs stjórn­mála­manns var rofin með þeim hætti að öryggi fjöl­skyldu hans og jafn­vel nágranna var stefnt í hættu. Þessi atburður kemur í kjöl­far skotárása á skrif­stofur nokk­urra stjórn­mála­flokka í borg­inni á und­an­förnum miss­er­um. Lær­dóm­ur­inn er sá að við horfum á breytt lands­lag þar sem stjórn­mála­menn geta átt von á því að verða fyrir ofbeld­is­árásum sem jafn­vel ógna lífi. Þetta er grafal­var­leg þróun sem markar vatna­skil en kemur því miður ekki alveg á óvart.

AUGLÝSING

For­dæmið að vestan

Við höfum á und­an­förnum árum orðið vitni að því að öfga­kenndum mál­flutn­ingi hefur vaxið fiskur um hrygg á alþjóða­vísu og öfga­öfl hafa fengið byr undir báða vængi eftir að maður af þvi sauða­húsi sett­ist í stól Banda­ríkja­for­seta og not­aði þann valda­stól til að kynda undir ofsóknum og andróðri m.a. gegn ákveðnum þjóð­fé­lags­hóp­um. Þessi fram­ganga náði hámarki eða frekar nýjum lægðum þegar frá­far­andi for­seti eggj­aði stuðn­ings­menn sína til mót­mæla sem end­uðu með því að fjöldi óeirða­seggja réð­ist til inn­göngu í banda­ríska þingið með þeim afleið­ingum að fimm létu lífið þar með tal­inn einn lög­reglu­mað­ur. Fólk um allan heim hefur fundið sér stað í berg­máls­helli fyrrv. Banda­ríkja­for­seta og deilt skoð­unum hans og mál­flutn­ingi, þar á meðal hér á landi – þó öllum þorra almenn­ings á Íslandi hafi reyndar blöskrað fram­ganga hans á valda­stóli. Nýlegt mynd­band um fram­kvæmdir við Óðins­torg og nágrenni er því miður dæmi um áróður sem byggir á alvar­legum rang­færslum og bein­ist gegn borg­ar­stjóra og fjöl­skyldu hans með ósvífnum hætt­i. 

Við líðum ekki ofbeldi

Ég tel að við séum komin á þann stað að það sé algjör­lega nauð­syn­legt að draga slíkt ofbeldi og hót­anir fram í dags­ljósið og leggja þá línu að við líðum ekki ofbeldi og mætum því að fullum þunga. Við sjáum dæmi þess hvað getur gerst ef við þegjum og látum slíkt ofbeldi yfir okkur ganga. Þess vegna þakka ég Degi B. Egg­erts­syni borg­ar­stjóra fyrir að segja frá árásinni og opna þannig umræð­una á opin­berum vett­vangi, þó það hafi örugg­lega ekki verið honum eða fjöl­skyldu hans létt­bært. Ég vil líka þakka Hildi Björns­dóttur borg­ar­full­trúa fyrir að hafa stigið fram fyrir skjöldu og for­dæmt ósmekk­leg ummæli félaga hennar í borg­ar­stjórn­ar­flokki Sjálf­stæð­is­manna og Eyþóri Lax­dal Arn­alds odd­vita flokks­ins fyrir að taka á málum þess ein­stak­lings af festu ásamt félögum sín­um. 

Borg­ar­stjórn for­dæmir ein­róma

Við for­dæmum hvers kyns ofbeld­is­verk sem bein­ast að almenn­ingi og stjórn­mála­fólki hvaða flokki sem það til­heyr­ir. Þau skila­boð þurfa að vera skýr og koma úr öllum áttum – og við höfum tæki­færi til að láta þetta atvik verða okkur til­efni til að bæta vinnu­brögðin í stjórn­mál­unum og mál­flutn­ing kjör­inna full­trúa. Við erum kjörnir full­trúar almenn­ings, sem hefur verið treyst fyrir því ábyrgð­ar­hlut­verki að taka ákvarð­anir og marka stefnu um hvernig megi bæta hag og lífs­skil­yrði almenn­ings. Við erum í for­rétt­inda­stöðu því fáir eru útvaldir til að sinna þessu mik­il­væga hlut­verki og þeim ber að fara vel með það vald og þá ábyrgð sem þeim er falið. Við höfum tíma­bundið umboð í borg­ar­stjórn til að láta gott af okkur leiða – nýtum það umboð vel og gerum okkar besta til að bæta stjórn­mála­menn­ing­una fyrir almenn­ing í borg­inni og þá sem á eftir okkur koma. Mik­il­vægt skref var stigið í vik­unni þegar borg­ar­stjórn sam­þykkti ein­róma ályktun þar sem árásir á bíl borg­ar­stjóra og höf­uð­stöðvar stjórn­mála­flokka voru for­dæmdar og öllu ofbeldi tengdu stjórn­málum hafn­að. Það er gott skref í rétta átt.

Greinin birtist í Kjarnanum 5. febrúar.