Samstaða

Atvinnuleysi á Íslandi er það mesta á Norðurlöndunum og með því mesta í Evrópu.

Logi Einarsson Þingflokksformaður

Það er af sem áður var þegar atvinnuþátttaka var meiri hér á landi en víðast hvar. Hún hefur ekki verið minni í hátt í 30 ár miðað við síðustu mánuði. Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki.

Stór hluti atvinnuleitenda á í erfiðleikum með að ná endum saman, hefur þegið mataraðstoð eða fjárhagsaðstoð frá hjálparsamtökum, líður efnislegan skort, getur ekki staðið í skilum með húsaleigu eða lán, getur ekki mætt óvæntum útgjöldum eða sótt sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, samkvæmt rannsókn Vörðu – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins. Staða ungs fólks, innflytjenda og kvenna er sérstaklega slæm og áhrifin á líkamlegt og andlegt heilsufar áþreifanleg.

Við verðum að verja afkomuöryggi heimila og standa hvert með öðru í þessari kreppu. Það eru gífurlegir hagsmunir fólgnir í því fyrir okkur öll að verja velferð, jöfnuð og mannauð og koma í veg fyrir að fólk án atvinnu upplifi fjárhagslega örvæntingu sem bitnar á heilsu þess, tekjum og starfsgetu til framtíðar.

Fyrst ríkisstjórnin er á móti því að hækka atvinnuleysisbætur í sögulegri atvinnukreppu, gæti hún velt fyrir sér að veita heimilum sem hafa orðið fyrir stórkostlegu tekjuhruni vegna atvinnumissis eins konar samstöðustyrki, í líkingu við þá tekjufallsstyrki sem hafa staðið fyrirtækjum til boða. Slíkt mætti til dæmis útfæra sem eingreiðslur í anda desemberuppbótar og barnauppbótar atvinnuleitenda með hliðsjón af fjölda mánaða á atvinnuleysisskrá og fjölda barna á framfæri.

Við getum ekki beðið með að aðstoða þessa hópa þar til ný ríkisstjórn tekur við stjórnartaumunum. Þetta þarf að gerast strax, um leið og við leggjum grunn að kraftmikilli viðspyrnu efnahagslífsins og fjölgun starfa.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. mars.