Sumarkveðja frá Loga

Kæru félagar,

Nú blása vorvindar og veirufjandinn því miður kominn aftur á kreik. Staðan er viðkvæm og stjórnvöld verða að hafa úrræði til að bregðast við. Við upphaf vikunnar tók Samfylkingin af skarið og lagði fram frumvarp sem gerir ráðherra kleift að skylda komufólk til dvalar í sóttvarnarhúsi. Þá hrökk ríkisstjórnin í gang eftir að hafa legið í dvala og hún kynnti í kjölfarið til leiks nýjar aðgerðir á blaðamannafundi sem okkur þótti mörgum afar ruglingslegur og kveikja fleiri spurningar en hann svaraði.

Í baráttunni við kórónaveiruna reiðum við okkur á okkar helstu sérfræðinga, þríeykið góða og auðvitað starfsfólk heilbrigðiskerfisins sem hefur unnið algjört kraftaverk á síðustu mánuðum. Þegar okkur þykir sundrung ríkisstjórnarinnar koma niður á aðgerðum í þágu sóttvarna, verðum við að bregðast við og leiða það fram sem sóttvarnaryfirvöld og almenningur eru að kalla á.

Hlutverk okkar í stjórnmálum er afar mikilvægt við þessar aðstæður. Það er undir okkur komið að draga úr áhrifum veirunnar og koma í veg fyrir óþarfa þjáningu fólks. Tryggja að faraldurinn hafi ekki langtímaáhrif á líkamlega og andlega heilsu almennings.

Það er líka í okkar höndum að milda efnahagslega höggið eins og hægt er og dreifa byrðunum jafnar. Aðalatriðið er að við þurfum að koma fólki til starfa, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Enda blasir við að í verstu atvinnukreppu á Íslandi frá upphafi mælinga er ekki rétti tíminn til að karpa um hlutfallslegt vægi hvors fyrir sig.

Samfylkingin hefur lagt til leið út úr atvinnukreppunni sem felst í skapa atvinnu fyrir fólk, tryggja velferð og leggja nýjar grænar stoðir undir hagkerfið. Það er kominn tími á nútímalegri nálgun í efnahagsmálum, á nýjar og ferskar lausnir við áskorunum samtímans. Því við stöndum andspænis framtíð byltingarkenndra breytinga og það er okkar að tryggja að hún verði okkur hagfelld. Ríkisstjórnin býður hins vegar upp á gamaldags lausnir, úrelta hugmyndafræði - og vill ræsa vélina óbreytta að loknum heimsfaraldri.

Þannig er erindi okkar jafnaðarmanna er brýnna en oftast áður, og við ætlum okkur stóra hluti í kosningunum í haust!

Nú þegar hafa öflugir og fjölbreyttir framboðslistar verið kynntir í fimm af sex kjördæmum og þrjú efstu sætin liggja fyrir í því sjötta. Þeir eru skipaðir spennandi flóru fólks hvaðanæva úr samfélaginu, blanda af nýju fólki og reynsluboltum. Og við erum svo lánsöm að hafa í okkar framlínu fólk sem hefur verið valið af sínum sveitungum til að sinna þeirra mikilvægustu málum í heimabyggð, landslið sveitarstjórnarfólks hefur ákveðið að gefa kost á sér fyrir Samfylkinguna í þessum kosningum!

Það er mikill hugur í nýjum frambjóðendum sem bætast við gríðarlega öfluga sveit þingmanna sem halda ríkisstjórninni við efnið síðustu mánuði þingsins. Þá hefur Kristján Guy Burgess þegar hafið störf sem kosningastjóri flokksins en honum hefur verið falið að vinna að því að við göngum öll vel í takt og í sókn fyrir jafnaðarstefnuna. Mikil vinna á sér nú stað að samhæfa vinnu starfsfólks hvort heldur sem er á skrifstofu eða þingflokki þannig að starfið verði sem markvissast og allir séu með auga á sama markmiði.

Okkur allra bíður nú það verkefni að afla kosningastefnu okkar stuðnings til að tryggja Samfylkingunni forystu í næstu ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem hefur félagslegt réttlæti, ábyrga efnahagsstjórn og græna uppbyggingu um allt Ísland að leiðarljósi. Ég hlakka til þessa verkefnis með ykkur og ítreka mikilvægi þess að við verðum samstillt í þeirri baráttu, því til mikils er að vinna.

Svo stöndum saman kæru félagar, brettum upp ermar og hefjumst handa - því það skiptir þjóðina miklu máli að sjónarmið jafnaðarstefnunnar verði leiðarljós við stjórn landsins.

Gleðilegt sumar!