Umboðsmaður aldraðra

Fyr­ir nokkr­um árum voru lagðar fram á Alþingi til­lög­ur að stofn­un embætt­is umboðsmanns aldraðra. Þær til­lög­ur náðu því miður ekki fram að ganga en ég tel mik­il­vægt að við rifj­um þær til­lög­ur upp og skoðum hvort til­efni sé til að setja slíkt embætti á lagg­irn­ar.

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Sam­fé­lagið hef­ur tekið örum breyt­ing­um á und­an­förn­um ára­tug­um. Sam­skipti borg­ara við þjón­ustuaðila og stofn­an­ir hins op­in­bera fara sí­fellt meira fram í gegn­um in­ter­netið og stöðugt minna með sam­tali aug­liti til aug­lit­is. Sím­svör­un er að sama skapi að drag­ast það mikið sam­an á hinum ýmsu þjón­ustu­stofn­un­um að biðtími á lín­unni leng­ist oft úr hófi. Þá þekk­ist einnig að svör sem fást þegar hringt er í op­in­ber­ar stofn­an­ir séu á þá leið að svör megi finna á heimasíðum og innri kerf­um. Þar þurfi að sækja um og haka við.

Á dög­un­um átti ég sam­tal við virðulega frú á efri árum. Hún er ný­lega orðin ekkja og greindi mér frá erfiðleik­um sín­um við að koma reglu á líf sitt eft­ir and­lát maka síns. Hvernig sam­skipti við yf­ir­völd, banka­stofn­an­ir og annað sem máli skipt­ir við rekst­ur heim­il­is væru flók­in þegar jafn­vel þyrfti að leysa ein­falt mál. Hinar stöðugu kröf­ur um að hún hefði í fór­um sín­um ra­f­ræn skil­ríki, virkt net­fang og kynni á alla rangala in­ter­nets­ins voru henni ekki að skapi. Hún kvaðst þurfa að fá lausn sinna mála en hver þjón­ustuaðil­inn benti á ann­an, ef þjón­ustuaðil­inn var yf­ir­höfuð mann­eskja en ekki bara ein­hver tölva.

Ég nefndi þessa stöðu í út­varps­viðtali í gær og þá kom í ljós að hvort tveggja fjöl­miðlakon­an sem og fjöldi hlust­enda tengdu mjög við þessa líðan. Að finn­ast þau ekki hafa full­komna stjórn á lífi sínu og að erfitt væri að fá svör um hvernig ætti að leysa hluti sem áður virt­ust auðveld­ir.

Þegar sam­fé­lagið hef­ur breyst jafn mikið og raun ber vitni þá get­ur staðan vaf­ist fyr­ir fólki. Hvert á að leita, hvað þarf að hafa í huga og hvernig veit fólk hvort skýrsl­um og skjöl­um hafi verið skilað eða reikn­ing­ar greidd­ir þrátt fyr­ir góðan vilja. Svo­kallaðar mín­ar síður á hinum og þess­um þjón­ustu­stofn­un­um verða að brattri brekku og læra þarf á hvert og eitt kerfi.

Þegar svona er komið væri til fyr­ir­mynd­ar að stjórn­völd settu á lagg­irn­ar embætti umboðsmanns aldraðra, rétt eins og við höf­um umboðsmann borg­ar­búa og umboðsmann barna. Með embætti umboðsmanns aldraðra væri hvort tveggja hægt að veita ein­stak­ling­um sem þangað leita víðtæk­ar upp­lýs­ing­ar um hvaðeina er varðar þeirra dag­lega líf og einnig koma á fram­færi upp­lýs­ing­um til stjórn­valda rík­is og sveit­ar­fé­laga frá þess­um sís­tækk­andi og fjöl­breytta hópi íbúa lands­ins. Hópi sem hef­ur ólík­ar þarf­ir, hef­ur ólík­an bak­grunn og er með mis­jafna þekk­ingu á víðfeðmi in­ter­nets­ins. Það myndi leysa mörg mál og auka vellíðan fólks á besta aldri.