COVID-kynslóðin þarf betri díl

Þórunn Sveinbjarnardóttir skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar.

Kynslóðin kennd við bókstafinn Z er snjöll í orðsins fyllstu merkingu. Hún er með snjalltæknina í fingurgómunum og víraða inn í heilabúið líka. Framtíðin er hennar ef samfélagið leyfir. En Zetan er líka kynslóð ungs fólks sem hefur lifað tvö áföll á stuttri ævi. Það fyrra, hrunið, er kannski óljós og óþægileg minning en hefur samt haft áhrif á heimssýn og framtíðarvonir ungs fólks. Hið seinna hefur staðið í meira en ár og er heimsfaraldur kórónuveirunnar og Zetan er einnig mörkuð af veirunni vondu.

Þótt margt hafi gengið betur á Íslandi en annars staðar í baráttunni við veiruna skulum við ekki gera lítið úr áhrifum sóttvarnaaðgerða og samkomutakmarkana á lífsgæði þeirra sem eru í framhalds- og háskólanámi. Eðlilegt félagslíf hefur ekki verið í boði og síðastliðið ár hefur einkennst af fjarnámi og félagslegri einangrun. Sem betur fer er landið tekið að rísa en við höfum ekki bitið úr nálinni með afleiðingar faraldursins á unga fólkið okkar.

Samfylkingin vill koma til móts við þarfir og væntingar unga fólksins og hefur því lagt eftirfarandi til: Við viljum að sumarstörf til námsmanna verði í þrjá mánuði í stað tveggja og hálfs og að störfin nái einnig til einkafyrirtækja, ekki bara opinberra stofnana og félagasamtaka eins og úrræði ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. Tryggja þarf námsmönnum réttinn til atvinnuleysisbóta í námshléum. Með því svarar Samfylkingin kalli LÍS og SHÍ um viðunandi framfærslu allt árið. Þá leggjum við til að fyrirtækjum verði gert kleift að ráða nýútskrifaða einstaklinga úr háskóla- og iðnnámi til starfa á ráðningarstyrk til sex mánaða.

Með þessum aðgerðum vill Samfylkingin tryggja framfærslu ungs fólks í háskóla- og iðnnámi og ekki síður gefa þeim tækifæri á vinnumarkaði að námi loknu. Það sem ekki má gerast er að COVID-kynslóðin hefji fullorðinsárin í óvissu, aðgerðaleysi og efnahagsþrengingum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. maí.