Kæru félagar, til hamingju með daginn!

1. maí ávarp Loga Einarssonar.

Logi Einarsson Formaður Samfylkingarinnar

Kæru félagar, til hamingju með daginn.

Kannski má segja að þessi dagur sé ein helsta hátíð okkar jafnaðarmanna – þó við gerum kannski ekki jafn mikið úr honum prívat og persónulega og sumum öðrum rauðu dögum almanaksins.

En hann er okkur þó samofin – okkur sem erum bandamenn launafólks og verkalýðshreyfingarinnar.

Við erum nefnilega sannfærð um það að samfélag, byggt á miklum jöfnuði og samstöðu er líklegra til að vera friðsamt, heilbrigt og framsækið.

Kæru félagar,

Dagurinn í dag minnir okkur á þrotlausa baráttu við hinar hefðbundnu áskorarir mannkyns – fátækt og ójöfnuð - sem hafa verið dragbítar á heilbrigt samfélag í margar aldir.

Margt hefur áunnist og við gleðjumst yfir því, en enn er of mikið ógert.

Ofan í þessa stanslausu viðureign bætast svo aðrar ákoranir við sem eru ekki síður flóknar: loftlagsógnin og tæknibreytingar.

Árangur okkar gegn loftlagsógninn verður afgerandi um það hvort okkar takist að búa komandi kynslóðum – og öllu lífríkinu lífvænlegar aðstæður.

Og við þurfum að mæta tæknibreytingunum hvort sem okkur líkar betur eða verr – því eðli þeirra er að þær una hvorki hreppamörkum eða landamærum.

Báðar eru sem sagt óumflýjanlegar og þar skiptir höfuðmáli að aðgerðir leiði til meiri lífsgæða fyrir alla – auki jöfnuð en ekki ójöfnuð.

Á þeirri vegferð eru gildi Samfylkingarinnar um frelsi, jafnrétti og samstöðu mikilvægustu hráefnin í uppskriftina.

Kæru félagar.

Brýnast verkefni næstu mánuða er þó að vinna okkur út úr núverandi atvinnukreppu og vinda ofan af þeim ójöfnuði sem hefur aukist samfara henni; fyrst og fremst vegna, seinna, of lítilla og um margt rangra viðbragða stjórnvalda.

Í stað þess að ráðast gegn birtingarmynd kreppunnar og verja strax hærri upphæðum beint til þeirra sem urðu fyrir atvinnumissi og stóðu illa fyrir, lét ríkisstjórnin opinberum stofnunum s.s. Seðlabanka Íslands það eftir veita auknu fé í umferð gegnum bankana til að örva hagkerfið.

Það fjármagn hefur fyrst og fremst gagnast þeim sem héldu vinnunni og endurspeglast nú í hærra húsnæðis- og verðbréfaverði, hærri verðbólgu og eignaójöfnuði.

Þessi leið hefur ekki gagnast þeim sem misstu vinnuna og hafa mörg þurft að tæma sjóði sína eða taka lán til að halda sjó og búa börnum sínum eins eðlilegt líf og kostur er gegnum þessa kreppu.

Þess vegna erum við stödd hér í dag á baráttudegi launafólks – því það er verk að vinna fyrir jafnaðarmannaflokk Íslands, verkalýðshreyfinguna og önnur þau sem berjast fyrir jafnara og réttlátara samfélagi.

Útlitið bjart segir fjármálaráðherra og virðist telja allt á eðlilegu róli.  

Vissulega skulum við að vera þakklát fyrir allt sem hefur áunnist í samfélaginu síðustu áratugina -  um margt erum við ríkt samfélag.

En við erum ríkt samfélag í sögulegri atvinnukreppu. Þar sem tugþúsundir vilja vinna en fá ekki vinnu - og er gert að bera þyngstu byrðar í heimsfaraldri; mest ungt fólk, konur og innflytjendur.

Og þetta er ljót birtingarmynd á ríku samfélagi. Ef ekki verður meira gert til að vinda ofan af þessum ójöfnuði getum við endað uppi með klofið samfélag til framtíðar.

Við lifum í ríku samfélagi sem sættir sig við að yfir 6000 börn lifa við skort,

öryrkjar og margir eldri borgurum þurfa að framfleyta sér við fátæktarmörk – og horfa á lífskjarabilið aukast ár frá ári.

Þar sem óöryggi á húsnæðismarkaði er viðvarandi og ungt fólk hefur ekki efni á því að kaupa íbúð eða að leigja á almennum leigumarkaði.

Þar sem það kostar of mikið að veikjast, hvort sem er á líkama og sál. Og margir fá ekki aðgang að viðunandi heilbrigðisþjónustu.

Þar sem margir innflytjendur búa við hörmulegan aðbúnað - fá ekki sömu tækifæri og hafa ekki sams konar öryggisnet og við sem fæddumst hér.

Þar sem námsmönnum er boðið upp á svo mikið lélegri skilyrði en í nágrannalöndunum að maður efast um að stjórnvöld geri sér grein fyrir gildi þeirrar fjárfestingar sem menntun er.

EN… þar sem örfáum einstaklingum í samfélaginu er hins vegar gert mögulegt að mokgræða á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, án þess að hún fái sanngjarnan hlut af arðinum.

Útlitið gæti verið bjartar hvað sem fjármálaráðherra finnst.

Ekki síst þegar ríkisstjórnin lætur þetta ekki einungis viðgangast heldur dregur tennur kerfisbundið úr eftirlitsstofnunum til að auðvelda þá óheillaþróun sem óheyrileg auðsöfnun.

Kæru félagar

Samfylkingin tekur undir með verkalýðshreyfingunni um að það sé nóg til– en það þarf hins vegar pólitískan vilja við landsstjórnina til þess að skipta gæðunum jafnar.

Því er til mikils að vinna að hér verði mynduð ríkisstjórn í haust með flokkum innanborðs sem vilja byggja á meiri jöfnuði, jafnvægi og félagslegu réttlæti.

Stjórn sem ræðst strax í markvissar aðgerðir til að jafna og bæta kjör alls almennings í landinu. Skapar aðstæður fyrir barnvænt samfélag þar sem jafnvægi ríkir milli vinnu og einkalífs, þar sem allir hafa aðgang að öruggu húsnæði og gjaldfrjálsri opinberri heilbrigðisþjónustu.  Sem tryggir öllu fólki öryggi og tækifæri frá vöggu til grafar.

Ríkisstjórn sem er tilbúin stokka upp í flóknum kerfum og gerir þau mannvænni. Félagshyggjustjórn sem sættir sig ekki við atvinnuleysi næstu árin heldur brettir upp ermarnar og skapar fleiri störf. M.a. með því að ráðast í græna atvinnubyltingu um land allt.

Hún þarf að efla fjölþjóðlegt samstarf og tryggja það hin óumflýjanlega tæknibylgja - sem ríður nú yfir - sé öllum til hagsbóta ekki fáum útvöldum.

Að hún leiði til aukinnar verðmætasköpunar, minna vistspors og meiri jöfnuðar en auðurinn af sjálfvirknivæðingunni renni ekki til enn færri aðila á enn meiri hraða enn áður hefur þekkst.

Og þannig stjórn þarf að vera tilbúin til róttækra loftlagsaðgerða sem tryggja sanngjörn umskipti - þannig að þær aðgerðir bitni ekki harðast á þeim sem síst skyldi - heldur skapi okkur öllum sem nú lifum - og framtíðarkynslóðum - velsæld og betri aðstæður.

Slík stjórn þarf, ólíkt núverandi að hafa hugmyndaflug og kjark til skoða nýjar leiðir og horfa kokhraust til framtíðar.

Sækja svo fram og komast fyrir vaðið í stað þess að vera í eilífum viðbrögðum.

Kæru félagar,

Þetta er annað árið í röð sem við komumst ekki í kröfugöngur eða getum hist í hefðbundnu vöfflukaffi í heimabyggð.

En þótt samtakamáttur launafólks verði kannski ekki svo sýnilegur á götum úti, heldur barátta verkalýðshreyfingarinnar, og Samfylkingarinnar, fyrir jafnara og öruggara samfélagi áfram. Og ég heiti því að auðnist Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands að leiða næstu ríkisstjórn verða krefjandi verkefni ekki tekin neinum vettlingatökum.

Ég óska jafnaðarmönnum, verkalýðshreyfingunni og öllu launafólki innilega til hamingju með daginn.