Leggja fram breytingartillögur við fjármálaáætlun

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram breytingartillögur við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem umfangsmestu tillögurnar snúa að barnafjölskyldum, atvinnusköpun, loftslagsmálum, biðlistum í heilbrigðiskerfinu, geðheilbrigðismálum og að kjörum aldraðra og öryrkja.
Þingflokkur Samfylkingarinnar telur áætlanir ríkisstjórnarinnar til næstu ára í grundvallaratriðum ranga leið út úr því efnahagsástandi sem þjóðin er nú að ganga í gegnum. Það sem veldur mestum áhyggjum er ekki endilega sú sýn um kyrrstöðu sem birtist í fjármálaáætluninni. Heldur það að þegar mest þarf á að halda að byggja upp eftir kreppu verði ráðist í niðurskurð.
Fjölskyldustuðningur
Samfylkingin leggur til breytingar á fjármálaáætlun sem snúa að því að færa kjör barnafjölskyldna nær því sem þekkist á Norðurlöndunum. Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar fá aðeins þær fjölskyldur sem eru með tekjur undir lágmarkstekjutryggingu óskertar barnabætur. Barnabæturnar hér á landi byrja að skerðast um leið og launin hafa náð 351.000 kr á mánuði og þegar mánaðarlaunin eru rétt rúmlega 600.000 kr á mánuði, koma engar barnabætur. Samfylkingin leggur því til að foreldrar sem eru með 600.000 kr. á mánuði eða minna fái óskertar barnabætur og að stuðningur við barnafjölskyldur verði greiddur út mánaðarlega. Hækkun barnabóta verði í fjórum skrefum og þegar þau markmið verða komin til framkvæmda hafi útgjöld vegna barnabóta farið úr 13 milljörðum á ári í 22,2 milljarða. Dæmi: Ef jafn háar barnabætur og nú eru yrðu greiddar út mánaðarlega þá næmu þær óskertar 31.000 kr á mánuði með einu barni undir 7 ára hjá sambúðarfólki en 44.000 kr til einstæðra foreldra. Ef börnin eru tvö og annað undir 7 ára er greiðslan 55.000 kr á mánuði hjá sambúðarfólki en 78.000 kr hjá einstæðum foreldrum.
Sanngjarnari lífeyrir
Samfylkingin leggur til umfangsmiklar breytingar að bættum kjörum aldraðra og öryrkja: að elli- og örorkulífeyri hækki til samræmis við hækkun lægstu launa og að frítekjumark vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum hækki í skrefum upp í 100.000 kr á mánuði úr 25.000 kr. Að lokum, að frítekjumark vegna atvinnutekna bæði öryrkja og ellilífeyrisþega verði hækkað að lágmarkstekjutryggingu hverju sinni. Samfylkingin leggur til að þessar breytingar taki gildi í fjórum skrefum og það fyrsta verði tekið strax á árinu 2022. Þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda kosta þær um 30 milljarða króna á ári en í því dæmi má gera ráð fyrir að 25% renni aftur til ríkissjóðs í formi skatta. Þessir útreikningar og tillögur byggja á nýútkominni skýrslu Eflingar.
Raunverulegt átak í loftslagsmálum
Samfylking leggur til 5 milljarða aukningu á ári til loftslagsmála þar sem þeir fjármunir yrðu nýttir í að flýta orkuskiptum, fjármagna grænan fjárfestingarsjóð, flýtaframkvæmdum vegna borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, auka stuðning við landsbyggðarstrætó, styrkja hringrásarhagkerfið, græna matvælaframleiðslu, gera breytingar á styrkjaumhverfi landbúnaðarins til að styðja betur við grænmetisframleiðslu og stuðning við að gera íslenska stjórnsýslu græna. Það er ljóst að ekkert minna en breytingartillögur Samfylkingarinnar munu duga til þess Ísland nái markmiðum sínum og hvað sé í fararbroddi þegar kemur að loftslagsaðgerðum.Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál hefur áætlað að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu árlega til loftslagsmála næstu árin svo takmarka megi hlýnun jarðar við 1,5°C miðað við meðalhitastigið fyrir iðnbyltingu. Losun Íslendinga er aðeins brotabrot af útblæstri á heimsvísu en dæmin sanna að smáríki geta haft afgerandi áhrif með því að taka frumkvæði, sýna gott fordæmi og beita sér fyrir breytingum á alþjóðavettvangi. OECD áætlar að til þess að halda hnattrænni hlýnun innan 2,0°C þurfi árlegar fjárfestingar að nema því sem samsvarar 6% af landsframleiðslu heimsins, annars vegar 4,0% vegna samgönguinnviða og annara innviða og hins vegar 2,0% vegna orkuvinnslu og orkunýtingar.
Biðlistana burt
Samfylkingin leggur til fjármögnun átaks til að vinna á biðlistum sem hafa vaxið umtalsvert vegna COVID. Annars vegar vegna skurðaðgerða og hins vegar vegna biðlista eftir geðheilbrigðisþjónustu. Samkvæmt minnisblaði Landspítalans til heilbrigðisráðuneytis frá því í febrúar sl. hafa biðlistar eftir sérfræðiþjónustu og skurðaðgerðum lengst á milli áranna 2020 og 2021. Alls bíða 3.625 einstaklingar eftir skurðaðgerð, en kórónuveirufaraldurinn hefur haft mismikil áhrif á biðtíma eftir tegundum skurðaðgerða. Augljóslega verður að vinna á þessum biðlistum hratt og vel og áætla til þess fjármagn. Við leggjum til að 4,4 milljörðum króna verði veitt í að vinna á biðlistunum samtals á árunum 2022 og 2023. Biðlistar eftir geðheilbrigðisþjónustu hafa verið viðvarandi, en talsverð aukning varð á milli áranna 2020 og 2021. Alls bíða 1.095 einstaklingar eftir geðheilbrigðisþjónustu hjá LSH og 131 barn bíður eftir þjónustu á BUGL. Samfylkingin leggur til að 500 milljónir verði veittar á ári út áætlunartímann til að bregðast við þessum alvarlega vanda.
Nánar um tillögurnar
Samfylkingin leggur fram ýmsar aðrar breytingartillögur og nefndarálit við fjármálaáætlun. Þær snúa að byggingu 3000 íbúða í almenna íbúðarkerfinu, hækkun húsnæðisbóta, framlög til heilbrigðisstofnana hækkuð ásamt því að brugðist verði við undirmönnun og álagi hjá lögreglunni. Einnig leggur Samfylkingin til að framlög til nýsköpunar og þróunar verði hækkuð og framlög til skatteftirlits og samkeppniseftirlits verði aukin.
Fjármögnun og áhrif
Breytingartillögur Samfylkingarinnar á fjármálaáætlun 2022-2026 nema aukningu á útgjöldum frá 3,1% árið 2022 til 5,5% árið 2026. Tillögur eru allar til að fjölga störfum, auka græna verðmætasköpun, bæta heilsu og öryggi fólksins í landinu og til að bæta kjör barnafólks og þeirra hópa sem verst eru settir í samfélaginu með réttlátari tekjuöflun og jöfnuð að leiðarljósi
Það nauðsynlegt að stjórnvöld marki sér skýra stefnu þegar kemur að grænum sköttum samhliða hvötum. Í því samhengi er mikilvægt að kolefnisgjald verði hækkað. Fjármagnstekjuskattur í hinum norrænu ríkjunum er hærri en hér á landi. Samfylkingin talar fyrir þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti og stóreignaskatti. Auðlindagjöld hér á landi eru alltof lág og bent hefur verið á að veiðigjaldið gefi svipaðar tekjur og tóbaksgjaldið. Það er óásættanleg staða sem snúa þarf við með hærri og réttlátari veiðigjöldum. Með bættu skatteftirliti og skattrannsóknum gæti skattinnheimta batnað umtalsvert. Mikill árangur gæti það talist ef um 10% af þeim milljörðum sem sviknir eru undan skatti fengjust í ríkissjóð.