Rauði þráðurinn

Rauði þráðurinn er vikuleg samantekt af helstu fréttum frá okkar kjörnu fulltrúum á þingi og í sveitarstjórnum.

Breytingartillögur Samfylkingar við fjármálaáætlun

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram breytingartillögur við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem umfangsmestu tillögurnar snúa að barnafjölskyldum, atvinnusköpun, loftslagsmálum, biðlistum í heilbrigðiskerfinu, geðheilbrigðismálum og að kjörum aldraðra og öryrkja.

Þingflokkur Samfylkingarinnar telur áætlanir ríkisstjórnarinnar til næstu ára í grundvallaratriðum ranga leið út úr því efnahagsástandi sem þjóðin er nú að ganga í gegnum. Það sem veldur mestum áhyggjum er ekki endilega sú sýn um kyrrstöðu sem birtist í fjármálaáætluninni heldur það að þegar mest þarf á að halda að byggja upp eftir kreppu verði ráðist í niðurskurð.

Samfylkingin leggur fram ýmsar breytingartillögur og nefndarálit við fjármálaáætlun. Þær snúa að byggingu 3000 íbúða í almenna íbúðarkerfinu, hækkun húsnæðisbóta, framlög til heilbrigðisstofnana hækkuð ásamt því að brugðist verði við undirmönnun og álagi hjá lögreglunni. Einnig leggur Samfylkingin til að framlög til nýsköpunar og þróunar verði hækkuð og framlög til skatteftirlits og samkeppniseftirlits verði aukin. Ítarlegri umfjöllun um breytingartillögurnar má finna hér.

Geðheilsa barna

Þá tók Ágúst Ólafur þátt í óundirbúnum fyrirspurnum til félags- og barnamálaráðherra. Hann ræddi um geðheilbrigðismál barna og alvarlega stöðu á biðlistum á barna- og unglingageðdeild og hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins.

Það skiptir máli hverjir stjórna Reykjanesbæ

Nýstaðfestur ársreikningur Reykjanesbæjar sýnir að ábyrg fjármálastjórn sem tryggir sterkt velferðarkerfi á erfiðum tímum og gerir sveitarfélaginu á sama tíma kleift að halda uppi framkvæmdastigi er aldrei mikilvægari en á krepputímum.

Í milljarðshalla stefndi á rekstri Reykjanesbæjar árið 2020 vegna Covid en niðurstaðan er 82,6 milljónir í plús. „Það hlýtur að teljast viðunandi niðurstaða að skila jákvæðri afkomu við þessar aðstæður sem uppi hafa verið. Fyrri áætlanir sem unnar voru fyrir Covid, gerðu ráð fyrir að bæjarsjóður yrði rekinn með tæplega 500 milljóna tekjuafgangi, en útkomuspá í október gaf til kynna að afkoman yrði neikvæð um einn milljarð," segir m.a. í bókun meirihluta bæjarstjórnar. Þessi jákvæða niðurstaða gefur fyrirheit um að viðspyrnan verði hraðari en í upphafi var talið.

Samfylkingin í Reykjanesbæ hefur leitt endurreisn bæjarins eftir 12 ára óstjórn sjálfstæðismanna sem lagt var upp í haustið 2014. Í þeirri erfiðu vinnu var leitast við að hlífa íbúum bæjarins við auknum álögum eins og hægt var og þess gætt að skila ávinninginum strax til íbúanna með öflugra velferðar- og skólakerfi um leið og kostur var. Þegar áfallið sem kófinu fylgir skall á Reykjanesbæ af miklu afli með meira en 20% atvinnuleysi þá var sveitarfélagið það vel statt að hægt var að halda uppi óbreyttu framkvæmdastigi og ekki þurfti að skerða þjónustu við íbúa.

Þessi endurreisn hefur átt sér stað á sama tíma og Samfylkingarfólk í Reykjanesbæ hefur verið í fararbroddi þeirra sem stóðu í lappirnar gegn mengandi stóriðju í túnfætinum og við breytingar á skipulagsáherslum sveitarfélagsins sem móta munu bæinn til framtíðar.

Það skiptir máli að Jafnaðarmenn koma að stjórn Reykjanesbæjar.