Réttlátar kjarabætur við aldraða og öryrkja

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram breytingartillögur við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, ein umfangsmesta tillagan snýr að kjörum aldraðra og öryrkja.

Samfylkingin leggur til umfangsmiklar breytingar að bættum kjörum aldraðra og öryrkja: að elli- og örorkulífeyri hækki til samræmis við hækkun lægstu launa og að frítekjumark vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum hækki í skrefum upp í 100.000 kr á mánuði úr 25.000 kr. Að lokum, að frítekjumark vegna atvinnutekna bæði öryrkja og ellilífeyrisþega verði hækkað að lágmarkstekjutryggingu hverju sinni. Samfylkingin leggur til að þessar breytingar taki gildi í fjórum skrefum og það fyrsta verði tekið strax á árinu 2022. Þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda kosta þær um 30 milljarða króna á ári en í því dæmi má gera ráð fyrir að 25% renni aftur til ríkissjóðs í formi skatta.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ítrekað lagt fram frumvörp um réttláta hækkun lífeyris almannatrygginga, sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum stjórnarflokkanna. Frítekjumark vegna launatekna öryrkja hefur haldist óbreytt frá 1. júlí 2009 og ætti með réttu að vera tvöfalt hærra í dag, hefði það fylgt launavísitölu. Þetta eitt og sér dregur úr virkni öryrkja sem annars gætu unnið meira á góðum dögum. Þarna er líka mikill og verðmætur starfskraftur ónýttur. Hætta á fátækt og fjárhagsþrengingum er mest meðal örorkulífeyrisþega og flókin skerðingarákvæði kerfisins ýta undir þá hættu. Hjálparstofnanir hafa á síðustu mánuðum orðið varar við mikla aukningu matarúthlutana. Flestir sem leita til þeirra eru öryrkjar, langveikar, einstæðar mæður og atvinnulaust fólk.
 

Ójöfnuður vex vegna atvinnuleysis, en einnig vegna þess að ellilífeyrir og örorkulífeyrir hækka ekki í takti við lægstu laun. Þannig er fjölmennum hópum haldið í fátæktargildru. Það verður að minnka kjaragliðnun undangenginna ára og hækka elli- og örorkulífeyri. Fólk sem ekki hefur tækifæri til að afla sér atvinnutekna hefur sumt engin lífeyrisréttindi, engar fjármagnstekjur og treystir algerlega á almannatryggingakerfið. Eina uppfærslan í fjármálaáætluninni fyrir kjör öryrkja og þá sem eldri eru er vegna fjölda þeirra en ekki til þess að bæta kjörin og 1. minni hluti fær ekki betur sé en að gert sé ráð fyrir fjölgun í fjármálaáætluninni sem er undir áætlun Hagstofunnar. Engin skref eru áformuð um að bæta kjör þeirra sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar.
 

Fólkið sem treystir á greiðslur Tryggingastofnunar til að lifa á, fær allt of lágar greiðslur og hækkanir hafa ekki haldið í við lífskjarasamninga. Kjaragliðnun miðað við lágmarkstekjutryggingu er því umtalsverð. Munurinn nú á lágmarkstekjutryggingu og ellilífeyri er 85.000 kr. á mánuði. Við ætlum að gera breytingar á þessu á næsta kjörtímabili komumst við í aðstöðu til þess eftir kosningar.