Þetta er bara misskilningur

Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingar Seltirninga. skipar 4. sæti í Suðvesturkjördæmi

Guðmundur Ari Sigurjónsson Bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingar Seltirninga - skipar 4. sæti í Suðvesturkjördæmi til komandi Alþingiskosninga

Kosningabarátta og frammistaða Jóns Gnarrs sem borgarstjóri Reykjavíkur er eflaust sá listgjörningur sem hefur haft hvað mest áhrif á stjórnmálasögu Íslands frá upphafi. Með húmorinn að vopni náði hann að afvopna jakkafataklædda stjórnmálamanninn sem telur sig vita allt best og sýna fram á að stjórnmál þurfi ekki að snúast um frekju og völd heldur frekar vilja til þess að gera vel og þjóna íbúum landsins. Án þess að þurfa að taka sig of alvarlega. 

Hér á Seltjarnarnesi hefur boðskapurinn ekki alveg náð inn í bæjarstjórnina þar sem jakkafataklæddur sjóðsstjóri situr bæði sem forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs og

telur sig ekki þurfa að hlusta á vilja íbúa eða starfsfólks bæjarins. Hann æsir sig við fulltrúa minnihlutans sem setja spurningamerki við þjónustuskerðingar og hallarekstur sveitarfélagsins og talar um draum vinstri manna um háa skatta þegar honum er bent á að auka þurfi tekjur ef halda á uppi því þjónustustigi sem hann sjálfur lofar.

Í valdatíð bæjarsjóðsstjórans hefur A sjóður Seltjarnarnesbæjar verið rekinn með yfir milljarð í halla á síðustu 6 árum og skuldaviðmið sveitarfélagsins farið úr 10% árið 2016 upp í 78% árið 2020.

Á kjörtímabilinu hefur bæjarsjóðsstjórinn skorið niður starf félagsmiðstöðvar og tónlistarskóla, hækkað gjaldskrár á barnafjölskyldur og eldri borgara, dregið úr niðurgreiðslu til dagforeldra og hætt heimgreiðslum til þeirra sem ekki fá pláss á leikskóla eða dagforeldri.

Í þjónustukönnun Gallup hefur á sama tíma ánægja og traust íbúa með þjónustu bæjarins lækkað á öllum sviðum og farið úr því að vera með eina bestu heildareinkunnina, 4,3 af 5 árið 2015 niður í að vera með eina lægstu, 3,4 af 5 árið 2020.

Í skoðanakönnun sem Maskína vann árið 2020 kom fram að aðeins 26% íbúa eru ánægðir með stjórnun bæjarins og að minnihluti íbúa styður við meirihluta bæjarstjórnar.

Meirihluti Seltjarnarnesbæjar hefur ekki getað staðið við stærsta kosningaloforð sitt um að byggja nýjan leikskóla á kjörtímabilinu vegna lélegrar fjárhagsstöðu bæjarins og nú er inntaka í leikskólann komin í hnút þar sem húsnæðið er bæði sprungið og illa við haldið. Þetta hefur valdið miklum áhyggjum meðal foreldra og vantrausti frá starfsfólki leikskólans sem mótmælt hefur harðlega frekari bráðabirgðarlausnum.

Þrátt fyrir þetta þá skilur bæjarsjóðsstjórinn ekki af hverju fulltrúar minnihlutans eru gagnrýnir og spyrja hann spurninga um hvernig snúa eigi rekstrinum við eða standa vörð um þjónustuna. Hann fer mikinn í fjölmiðlum um að þessar staðreyndir séu einfaldlega upphlaup og miskilningur minnihlutans. Hann vill meina að tapið sé ekki tap, skuldaaukningin sé ekki skuldaaukning og þjónustuskerðingarnar séu ekki þjónustuskerðingar. Kunnugleg rödd Georgs Bjarnfreðarsonar, annars góðs listgjörnings Jóns Gnarr, byrjar að hljóma:

„Þetta er bara mis...þetta er bara miskilningur“

Greinin britist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní.