Betri borg fyrir börn
Skúli Helgason, formaður skóla og frístundaráðs, og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar
Stuðningur við börn í Reykjavík verður aukinn, kerfið einfaldað og samstarf skóla og velferðarþjónustu aukið til muna. Þetta er í hnotskurn inntak nýrra tillagna sameiginlegs stýrihóps skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs en samstarf þessara tveggja stærstu fagsviða og -ráða borgarinnar hefur aldrei verið nánara. Verkefnið Betri borg fyrir börn verður innleitt í öll hverfi borgarinnar frá og með næstu áramótum. Miðlægt starfsfólk leikskóla, grunnskóla, frístundar og sérfræðingar skólaþjónustu munu þá vinna hlið við hlið á þjónustumiðstöðvum borgarinnar.
Við úthlutun fjármagns til grunnskóla verður horft meira til lýðfræðilegra þátta til að auka jöfnuð milli barna og borgarhluta; umsóknarferlar í skólaþjónustu verða rafvæddir og faglegt mat innleitt á árangri af sérkennslu, sértækum stuðningi, skólaþjónustu og þjónustu velferðarsviðs við börn og fjölskyldur þeirra. Faglegt árangursmat mun líka ná til vals á þeim stuðningsaðferðum sem beitt er hverju sinni, hvort sem það tengist vinnu með einhverfum börnum, lestrarkennslu eða öðrum þáttum. Þar skiptir sköpum að beitt sé sannreyndum aðferðum til að stuðningur við börn skili sér í betri líðan og bættri námslegri og félagslegri stöðu þeirra.
Markmiðið er að auðvelda aðgengi að skólaþjónustu þjónustumiðstöðva og bæta þjónustu við börn sem þurfa stuðning í námi og samþætta hann eftir megni öðrum stuðningi við fjölskylduna. Þetta er stórt framfaraskref fyrir foreldra sem þurfa síður að eyða orku og tíma í að læra á „kerfið“ og knýja dyra á ólíkum stöðum í leit að stuðningi við börn sín.
Bregðumst fyrr við
Sérstakt átak verður gert í að styðja við börn sem leitað hafa eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga skólaþjónustunnar í vetur en umsóknum um skólaþjónustu hefur fjölgað hratt undanfarið í tengslum við Covid-faraldurinn. Innan Reykjavíkur er einlægur vilji til umbóta í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra og þverpólitísk samstaða var um tillögurnar í borgarráði á dögunum, sem er dýrmætt veganesti inn í framtíðina.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. júní.