Það verður aldrei til einskis

Logi Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar er oddviti í Norðausturkjördæmi

Logi Einarsson Formaður Samfylkingarinnar

Stundum er því haldið fram að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu falsfréttir, það sé uppspuni að maðurinn geti haft áhrif á loftslagsbreytingar. Þetta er rangt. Það er brýnt að grípa til kraftmikilla aðgerða. En jafnvel þótt svo væri ekki þá munu slíkar aðgerðir styrkja efnahag landsins og bæta lífsgæði okkar.

Þær geta skapað þúsundir nýrra starfa og spennandi tækifæri fyrir ungt fólk við nýsköpun í matvælaiðnaði, tækniþróun og vísindum. Þær geta leitt til nýrra uppfinninga og vöruþróunar. Þær geta eflt nýjar og grænar útflutningsstoðir. Við getum ráðist í markvissa uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu vítt og breitt um landið, í sátt við umhverfið og styrkt stöðu okkar sem loftslagsvænn áfangastaður, í harðnandi, alþjóðlegri samkeppni um ferðamenn. Loks geta þær stuðlað að umhverfisvernd og komið Íslandi á kortið sem forysturíki í loftslagsmálum.

Þannig getum við verndað náttúruna, lífríkið og loftslagið og skapað um leið ný verðmæti sem græn og fjölskylduvæn ríkisstjórn myndi tryggja að rynni í vasa almennings, ekki einungis auðmanna. En hvað ef þetta væri allt til einskis, gæti einhver spurt: Hvað ef loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ósannindi eða misskilningur? Þá skiptir það í sjálfu sér engu máli því slíkar aðgerðir geta leitt til betra lífs fyrir venjulegt fólk, ekki bara í dag eða á morgun, heldur næstu kynslóðir líka.

Þótt ég vildi óska þess að myndirnar sem við sjáum af loftslagshamförum víða um heim væru falsfréttir, sýna vísindin okkur annað. Og ef síðasti vetur hefur kennt okkur eitthvað þá er það mikilvægi þess að hlusta á sérfræðinga, hlusta á vísindafólkið okkar. Hann kenndi okkur líka að með samhentu átaki getum við sigrast á erfiðum, alþjóðlegum áskorunum.

En samhent átak í loftslagsmálum byggt á ráðleggjum okkar færustu vísindamanna krefst samhentrar ríkisstjórnar sem setur loftslagsmálin í forgang. Tryggjum betra líf og ráðumst í kraftmiklar og uppbyggilegar aðgerðir í loftslagsmálum.

Það verður aldrei til einskis

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 7. júlí 2021