Áskorun til stjórnmálaflokka

Formaður Samfylkingarinnar sendi eftirfarandi áskorun á alla stjórnmálaflokka 22. júlí 2021.

Í dag minnumst við þess að 10 ár eru liðin frá hinum hræðilegu atburðum í Útey og Osló, þar sem hryðjuverkamaður myrti 77 manns og særði 242, flest ungmenni, þau yngstu 14 ára gömul. Rótin að árásunum voru fordómar, rasismi og útlendingahatur, enda var þeim beint gegn þeim sem helst hafa haldið á lofti gildum alþjóðahyggju, mannúðar og umburðarlyndis.

Þrátt fyrir þetta höfum við síðasta áratuginn horft upp á mikla fjölgun árása á grundvallarréttindi minnihlutahópa víða um heim þar á meðal flóttamanna og hælisleitenda. Undirrótin er alls staðar sú sama; vaxandi fordómar, útlendingaandúð og einangrunarhyggja.

Sumir stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa kynt undir öfgasjónarmið og tekið þátt í að dreifa lygum og fordómafullum alhæfingum um minnihlutahópa til að afla sér vinsælda.

Ísland er því miður ekki undanskilið.

Við berum öll ábyrgð. Andvaraleysi getur leitt til þess að gengið verði á mannréttindi minnihlutahópa í samfélaginu og ýtt undir öfgar, hatur og mismunun.

Það er brýnt að formenn stjórnmálaflokka og annað forystufólk sendi skýr skilaboð um að málflutningur sem ýtir undir andúð í garð minnihlutahópa verði ekki liðinn í kosningabaráttunni framundan. Að kynda undir samfélagslegri sundrungu, fordómum og hatri getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. 

Á þessum tímamótum, þegar tíu ár eru liðin frá fjöldamorðunum í Noregi, sendi ég því eftirfarandi áskorun á formenn og forystufólk allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram í Alþingiskosningunum 25. september.

____

Áskorun til stjórnmálaflokkanna 22. júlí 2021 

Hryðjuverkin í Noregi fyrir áratug voru sterk áminning um að fordómar, hatur og sundurlyndi geta haft ófyrirséðar afleiðingar í jafnvel friðsælustu samfélögum. Við sem gegnum forystu í stjórnmálum verðum öll að sýna ábyrgð.

Ég skora á formenn og forystufólk allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram lista fyrir Alþingiskosningarnar 25. september að grípa til allra tiltækra aðgerða til að halda aftur af orðræðu og stefnumálum sem kynda undir mismunun og andúð gegn útlendingum og öðrum minnihlutahópum í samfélaginu. Við setjum tóninn. Það er ábyrgðarhlutur að beita pólitískum málflutningi hvort sem er í ræðu, riti eða á samfélagsmiðlum sem getur ýtt undir ógn og ofbeldi gagnvart minnihlutahópum – og þeim samtökum og einstaklingum sem halda á lofti fána umburðarlyndis, mannúðar og alþjóðahyggju á Íslandi.

 Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

Akureyri 22. júlí 2021