Barnabætur eru ekki munaðarvara

Þórunn,  kraginn, banner,

Við jafnaðarmenn lítum svo á að samfélagið allt beri ábyrgð á framfærslu og velferð barna og því segir sig sjálft að stuðningur við barnafjölskyldur er réttlætismál, bæði sanngjarn og nauðsynlegur.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Það er ömurlegur vitnisburður um samfélag okkar að efnalitlir foreldrar þurfi að leita til hjálparstofnana til að fæða og klæða börnin sín. Það er því ekki einkamál neins að tíu þúsund börn á Íslandi búi við fátækt heldur blákaldur veruleiki sem við öll berum ábyrgð á.

Frá 1990 hefur stuðningur með hverju barni minnkað um meira en helming á Íslandi. Sannkölluð öfugþróun sem sendir þau skilaboð til almennings að barnabætur séu ekki sjálfsagður hluti velferðarkerfisins. Meira að segja þau tekjulægstu fá ekki fullar barnabætur. Þær byrja nefnilega að skerðast við tekjur umfram 351.000 kr. á mánuði. Helmingur launafólks hér á landi er með tekjur á bilinu 480.000 kr. til 749.000 kr. skv. upplýsingum Hagstofunnar.

Samfylkingin leggur til hækkun barnabóta og að þær verði greiddar út mánaðarlega. Við leggjum til að skerðingarmörk barnabótagreiðsla verði hækkuð í 600.000 kr. fyrir einstætt foreldri og 1.200.000 kr. fyrir par. Tökum dæmi um einstætt foreldri sem á tvö börn, annað undir sjö ára aldri, og er með 600.000 kr. í mánaðartekjur. Mánaðarlegar barnabætur þess verða skv. okkar tillögum 77.625 kr. Sambýlisfólk með börn á sama aldri og samanlagðar tekjur upp á 1.200.000 kr. færu í 54.208 kr. á mánuði. Barnabætur eru skattfrjálsar greiðslur og mjög mikilvægur hluti velferðarsamfélagsins enda ritað í DNA jafnaðarstefnunnar að fjárhagsstaða foreldra megi ekki koma í veg fyrir að börn og ungmenni njóti sjálfsagðra mannréttinda eins og skólamáltíða og tómstundaiðkunar.

Fyrir 30 árum var fjölskylduformið einsleitt hér á landi. Flest börn tilheyrðu hefðbundinni kjarnafjölskyldu tveggja gagnkynhneigðra foreldra eða einstæðra foreldra. Nú er öldin önnur, sem betur fer. Fjölskyldur eru fjölbreyttar, hinsegin og samsettar. Fjölmörg börn alast upp til jafns hjá foreldrum sem deila forræði. Barnabótakerfið þarf að aðlaga sig betur að veruleika fjölskyldnanna hvernig sem þær eru og styðja foreldra án tillits til lögheimilis barna.

Okkar bíða mörg mikilvæg verkefni við að styrkja og styðja við börn og fjölskyldur þeirra. Samfylkingin þarf á stuðningi þínum að halda til að hrinda þessum mikilvægu málum í framkvæmd.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 31. ágúst.