Listin að lepja dauðann úr skel

Viðar, reykjavík,

Viðar Eggertsson er leikstjóri, eldri borgari og frambjóðandi Samfylkingarinnar í 3. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Viðar Eggertsson Varaþingmaður

Ólgandi og síkvirkt menningarlíf er einn af hornsteinum samfélagsins og gerir þjóðina sjálfstæða og stolta. Öflugt menningarlíf er spegill þjóðar og sjálfsímyndar. Við höfum átt þeirrar gæfu að njóta að eiga frábæra listamenn sem hafa gefið okkur sterka sjálfsmynd og um leið skoðað haukfránum, gagnrýnum augum íslenskt samfélag.

Við eigum óvenju stóran hóp af listamönnum sem starfa á öllum sviðum lista og spanna allt litrófið frá dægrastyttingu til djúpköfunar. Öll eru þau þörf í þessari mikilvægu heilsteyptu mósaíkmynd þjóðarspegilsins. Örfá ná til stjarnanna og hljóta verðuga umbun. Stærstur hluti þeirra eru einyrkjar sem njóta engrar afkomutryggingar nema á stundum þegar hluti þeirra fær lágmarkslaun í takmarkaðan tíma í nafni listamannalauna. Starfsævina langa mega þau þó oftast treysta á stopula og rýra innkomu.

Það er seigla og óbilandi tryggð við köllunina sem fær þau til að halda starfi sínu áfram án markverðar umbunar og flest vinna íhlaupastörf við allt annað til að geta brauðfætt sig og lengja þar með vinnudaginn til muna; vinna myrkranna á milli yfir hábjargræðis tímann.

Listin á tímum faraldurs

Síðustu 18 mánuði hafa verið þeim einstaklega erfiðir. Þessir covid tímar hafa nánast þurrkað út afkomumöguleika þeirra sem hafa þurft að reiða sig á lifandi samskipti við að miðla list sinni og þá einkum sviðslistafólk og tónlistarmenn. Í samkomutakmörkunum og margs konar sóttvarnarkröfum hafa þau þurft að gera enda­laus ný plön og bregðast við ástand­inu af miklu hyggjuviti sem listamenn eiga þó í ríkum mæli.

Sá litli hluti listamanna sem nýtur ákveðins starfsöryggis eru þeir sem eru fastráðnir hjá menningastofunum. Þeir hafa þurft að sýna ótrúlega aðlögunarhæfni við að koma á framfæri listsköpun sinni og menningarstofnanirnar þurft að laga sig að hörðum takmörkunum til að halda úti a.m.k. lágmarks starfs­semi og bjóða upp á alls kon­ar menn­ing­ar­viðburði miðað við þær tak­mark­an­ir sem hafa verið í gildi hverju sinni. Einnig hafa þau þurft að treysta á og læra ólík­ar miðlun­araðferðir. Það hefur reynt á listamennina, en ekki síður stjórnendur menningarstofnana sem hafa þurft að reyna að halda sjó í rekstri þeirra án teljandi innkomu. Stóru menningarstofnanirnar eru eins og skip sem eru við það að sökkva úti á ballarhafi. Lausráðnu listamennirnir, þar sem annars staðar, hafa þurft að sjá að baki verkefnum og um leið launum. Þeirra eyðimerkurganga hefur spannað allan 18 mánaða covid faraldurinn. Því úrræði ríkisstjórnarinnar eiga í flestum tilvikum ekki við þessa listamenn og þeir settir út á kaldan klaka með enga björgunarhringi.

Láglaunahópurinn listamenn þjóðarinnar

Listamenn á Íslandi hafa ekki verið hávær kröfuhópur meðan starfsvettvangur þeirra hefur nánast strandað á blindskeri. Hinir fáu talsmenn þeirra hafa ekki barið sér á brjóst í öllum fréttatímum og grátið hörmulegt ástand sitt og gert kröfur um að horft sé fram hjá þeirri staðreynd að við eigum í höggi við banvænan faraldur, svo starf þeirra megi blómstra þrátt fyrir allt og alla. Öðru nær. Þeir hafa sýnt þjóð sinni nærgætni og tekið á sig óbærilegar byrðar möglunarlítið, enda hefur það verið lenska meðal menningarþjóðarinnar að listamenn eigi ekki að mögla.

 

Það hafa þau heldur ekki gert. Þau eru nefnilega orðin svo vön listinni að lepja dauðann úr skel.

 

Og það er eins gott, því þessi magnaði þjóðfélagshópur er láglaunafólk upp til hópa. Ég þekki það sjálfur á eigin skinni eftir að hafa helgað megnið af 50 ára starfaldri mínum á þessum vettvangi. Nú horfi ég á kynslóðina mína, eldri listamenn, fara hver á fætur öðrum á eftirlaun – og þau ekki há. Það er þyngra en tárum taki að sjá góða listamenn, jafnvel virta langt útfyrir landssteinana, verða að lokum sára fátækt að bráð. En þau kyngja þeim beisku kjörum, rétt eins og þau hafa gert allan sinn listferil.

Við getum gert betur. Við verðum að gera betur!

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 28. ágúst.