Alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslagsmálin eru brýnasta málið sem heimsbyggðin verður að leysa. Þar duga engin vettlingatök. Á Íslandi er losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa sú mesta í Evrópu. Ábyrgð okkar er því sannarlega mikil og  skylda okkar að tryggja komandi kynslóðum lífvænleg skilyrði.

Á næsta kjörtímabili ætlar Samfylkingin að hefja kraftmikla sókn í loftslagsmálum. Til þess að hrinda þessum mikilvægu áformum í framkvæmd verðum við að fá ríkisstjórn með nýja nálgun. Þess vegna ætlar Samfylkingin að leiða saman ríkisstjórn sem setur loftslagsmálin í forgang.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

Á vef Samfylkingarinnar er að finna metnaðarfulla áætlun um aðgerðir í loftslagsmálum. Þar er að finna yfirlit yfir 50 aðgerðir sem Samfylkingin ætlar að hrinda í framkvæmd fái hún umboð til þess. Í fyrsta lagi ætlum við að lögfesta loftslagsmarkmið um a.m.k. 60% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á ábyrgð stjórnvalda fyrir árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Við ætlum einnig að móta nýja og metnaðarfyllri aðgerðaáætlun um réttlát og sjálfbær umskipti en þá sem nú er í gildi og tryggja til hennar fjármagn. Í þriðja lagi ætlum við að gera markvissa tímasetta áætlun um útfösun jarðefnaeldsneytis svo Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040.

Uppbygging almenningssamgangna mikilvæg

Mikilvægur þáttur í árangri loftslagsmála er efling almenningssamgangna. Í þeim efnum ætlar Samfylkingin að flýta framkvæmdum við Borgarlínu og við aðrar loftslagsvænar framkvæmdir í samgönguáætlun höfuðborgarsvæðisins. Hér þarf ekki að velkjast í vafa um hversu mikilvægar framkvæmdir við Borgarlínu eru fyrir íbúa Hafnarfjarðar til framtíðar. Einnig ætlum við að hefja undirbúning að Keflavíkurlínu, grænni tengingu milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, og koma þannig á betri tengingu milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Til að efla enn frekar fjölbreyttari ferðamáta ætlum við svo að gera hjólreiðaáætlun fyrir allt landið og setja aukinn kraft í uppbyggingu göngu- og hjólastíga um allt land.

Sterk Samfylking forsenda breytinga

Núverandi ríkisstjórn er ríkisstjórn kyrrstöðu og afturhalds. Tærasta birtingarmynd þess eru loftslagsmálin þar sem allan metnað vantar hjá núverandi stjórnvöldum. Göfug markmið VG í málaflokknum brotna öll á neitunarvaldi Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnarborðið. Þrátt fyrir það hefur VG lýst því yfir að þeirra fyrsti kostur um myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum sé samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka. Til þess að komast hjá neitunarvaldi Sjálfstæðisflokksins í loftslagsmálum – og öðrum brýnum umbótamálum –  er langöruggasta leiðin að kjósa Samfylkinguna.

Gefðu Sjálfstæðisflokknum frí – kjóstu Samfylkinguna. X-S á kjördag.

Árni Rúnar Þorvaldsson
skipar 8. sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi