Hræðslan, reiðin og vonin

Guðmundur Andri, þingamður, rithöfundur
Guðmundur Andri Thorsson Þingmaður

Þegar kjósendur gaumgæfa nú framboðin til Alþingis mættu þeir íhuga hvernig þessi framboð reyna að höfða til ólíkra tilfinninga þeirra, og um leið hversu góður áttaviti þær tilfinningar séu.

Frambjóðendur stjórnarflokkanna tala um eðlilega um stöðugleika, en þegar rýnt er í skilaboðin sér maður að tilfinningin sem þeir reyna að höfða til – í mismiklum mæli – er hræðsla, óttinn við breytingar og kollsteypur, löngunin til að halda í og varðveita tilveruna eins og okkur finnst hún vera. Það er gott og blessað en vandinn er auðvitað sá að óbreytt ástand er ekki í boði, breytingar eru óhjákvæmilegar, vandamál blasa við sem þarf að leysa, ekki síst nú á tímum hraðra loftslagsbreytinga. Og þá þarf jöfnuður að vera leiðarljósið, hagfræðikenningar sem boða gildi misskiptingar og ójöfnuðar eru ekki bara úreltar heldur beinlínis hættulegar á slíkum tímum. Stjórnarflokkarnir vilja ekki mikið tala um það en samkvæmt þeirra eigin fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 100 milljóna niðurskurði opinberra útgjalda á þessu kjörtímabili. Slíkt er ekki stöðugleiki.

Sú tilfinning sem sumir stjórnarandstöðuflokkar – ekki síst þeir sem enn bíða þess að fá kjörna fulltrúa – reyna að höfða til og virkja er hins vegar reiðin. Og það er svo margt sem manni svíður: misskiptingin, ranglætið, fátækt og óheyrilegt ríkidæmi, svikið loforð ... þannig mætti lengi telja. En reiðin er ekki góður förunautur til lengdar í stjórnmálum þó að hún geti vakið mann til vitundar, hún er ekki uppbyggilegt afl heldur brýtur hún niður. Hún er ekki skapandi heldur eyðandi, og eyðir líka þeim sem haldinn er henni.

Við í Samfylkingunni erum ekki talsmenn óbreytts ástands og óbreyttra stjórnarhátta. Við erum ekki heldur talsmenn niðurrifs. Við viljum hins vegar bæta kjör almennings. Við tölum um það í stefnu okkar að við viljum betra líf fyrir fjölskyldur, gamalt fólk, einyrkja, börn, öryrkja, launafólk, námsmenn, atvinnuleitendur, eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja, listamenn ... með öðrum orðum: betra líf fyrir almenning.

Við lofum ekki áhyggjulausu lífi því að stjórnmálamenn geta ekki lofað því frekar en eilífum sólskinsstundum; við lofum ekki óbreyttu ástandi, því að stöðugleikinn er tálsýn; við lofum ekki því að brjóta allt og bramla vegna þess að við erum ekki byltingarsinnar. Við lofum hins vegar því að hafa þetta leiðarljós í öllum okkar störfum: að gera líf almennings betra hér á landi.

Og það sem meira er: við teljum að þetta sé hægt. Það gerum við með því að auka ráðstöfunarfé fólks með því að lækka kostnað sem fólk hefur af daglegu lífi og af því að uppfylla grunnþarfir sínar og sinna, húsnæðiskostnaði, vaxtakostnaði, matarkostnaði. Við gerum það með því að afla ríkissjóði tekna með veiðigjöldum og stóreignaskatti á hreina eign umfram 200 millljónir upp á 1,5%, sem er afar hóflegt og ríka fólkið munar ekkert um en almenning munar mikið um. Við gerum það með því að láta almannahag ævinlega ganga fyrir sérhagsmunum. Stjórnmál snúast um gæði og byrðar, og hvernig þessu er skipt. Við jafnaðarmenn viljum jafna byrðarnar og að fleiri njóti gæðanna.

Þetta er hægt. En það verður ekki gert öðruvísi en með því að hækka skatta á þau ofsaríku en lækka greiðslubyrði almennings. Sumir flokkar höfða til hræðslu. Aðrir flokkar höfða til reiði.

Við í Samfylkingunni viljum virkja vonina.

Greinin birtist á Kjarnanum 11. sept.