Með Samfylkingu gegn sérhagsmunum
Ég hef verið fötluð alla mína ævi og barist fyrir réttindum mínum, réttindum annars fatlaðs fólks og mannréttindum í samfélaginu öllu. Ég er jafnaðarmaður því ég sé og finn á eigin skinni hvernig gæðunum er misskipt, hve mörg sóknartækifæri við höfum í íslensku samfélagi sem eru vannýtt.
Í dag höfum við val um að kjósa stjórnmálahreyfingu sem vinnur að því að jafna leikreglurnar, efla mannréttindi og jöfnuð, keyra af stað raunverulegar aðgerðir vegna loftslagsbreytinga, styrkja efnahagslífið með uppbyggingu og fjárfestingum í stað niðurskurðar og sérhagsmunadekurs. Í dag eru kosningar og ég ætla að kjósa Samfylkinguna – jafnaðarmannaflokk Íslands.
Samfylkingin hefur raunhæf og fjármögnuð loforð. Henni er treystandi til að taka ákveðin skref framþróunar og byggir á 100 ára arfleifð jafnaðarmanna sem skapað hafa bestu samfélög sem þekkjast í heiminum með tilliti til bæði velferðar og efnahagsstjórnar.
Fái ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri græn, sterka kosningu er ljóst að haldið verður áfram með óbreyttum hætti. Við fáum áframhaldandi íhaldssemi, skort á mannúð og jafnrétti, skort á hugrekki í uppbyggingu almenningssamgangna og grænna atvinnutækifæra, pattstöðu í loftslagsaðgerðum; stöðnun. Við fáum lægsta pólitíska samnefnara og missum af stórkostlegu tækifæri sem ekki kemur aftur í fjögur ár.
Ég kýs Samfylkinguna fyrir son minn, fyrir ömmu mína, fyrir fatlað fólk, fyrir atvinnurekendur, fyrir listamenn og einyrkja, fyrir hinsegin fólk, fyrir loftslagið, fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og fyrir barnafólk. Ég kýs Samfylkinguna því henni er best treystandi til að standa með almenningi gegn sérhagsmunum.
Greinin birtist á vísi.is