Samfylkingin með hinseginvænustu stefnuna

Samkvæmt niðurstöðum úr úttekt Samtakanna '78 á stefnu framboða til Alþingis fær Samfylkingin hæstu einkunn allra framboða þegar kemur að hinsegin málum.

Samkvæmt niðurstöðum úr úttekt Samtakanna '78 á stefnu framboða til Alþingis fær Samfylkingin hæstu einkunn allra framboða þegar kemur að hinsegin málum. Úttektin byggir á greiningu á stefnu flokkanna og uppfyllir Samfylkingin 77% þeirra atriða sem tilgreind eru á kvarða samtakanna. Athygli vekur að fimm flokkar fá algjöra falleinkun á hinseginkvarðanum.

Niðurstöður úttektarinnar voru kynntar í Veröld Vigdísar 9. september og í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður þar sem fulltrúar flokkanna kynntu stefnu flokkanna í hinsegin málefnum og svöruðu spurningum. Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, sem vermir þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, var fulltrúi Samfylkingarinnar á fundinum. Inga er tvíkynhneigð móðir í samkynja sambandi og þekkir því málaflokkinn að eigin raun. 

Telur bakslag vera á samfélagsmiðlum

Inga sagðist á fundinum vera meyr yfir því að Samfylkingin mælist svona hátt og fór yfir sérstaka hinsegin kosningastefnu Samfylkingarinnar sem tekur á viðfangsefnum eins og m.a. heilbrigðisþjónustu við trans fólk, réttindi intersex barna, blóðgjafir sam-, tví- og pankynhneigðra karlmanna, hatursorðræðu og ofbeldi gegn hinsegin fólki. „Í grunninn er auðvitað fræðslan. Það er hún sem skiptir mjög miklu máli,“ sagði Inga á fundinum og bætti við að nú væri í gangi bakslag á samfélagsmiðlum eins og Tiktok. „Þar grassera viðbjóðslegir fordómar og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki, af hálfu barna og ungmenna. Þetta veldur manni áhyggjum yfir því hvert við erum að stefna - þetta er eitthvað sem við verðum að taka mjög föstum tökum.“

Vill að kerfið endurspegli fjölbreytileikann

„Við sem tilheyrum jaðarhópum þekkjum það náttúrulega mjög vel hvernig öráreiti og fordómar og hatursorðræða hleðst upp,“ sagði Inga á fundinum, en hún er bæði jaðarsett vegna fötlunar og hinseginleika og verður því fyrir margþættri mismunun. Hún telur að þetta sé eitthvað sem jaðarsett fólk þarf stöðugt að vera að vinna úr og að þannig sé aðgengi að sálfræðiþjónustu sérstaklega mikilvæg fyrir þessa hópa. Þá fór hún yfir það hvernig hinsegin fólk mætir fordómum innan kerfisins sjálfs. „Ég er skráð pabbi barnsins míns inni í Heilsuveru. Það er ekki gert ráð fyrir því í Heilsuveru að barn geti átt tvær mæður eða bara foreldra yfir höfuð. Hún segir að samfélagið sé ennþá fast í þeirri hugmynd að það sé annaðhvort pabbi eða mamma; „tveir foreldrar sem búa í einbýlishúsi á Álftanesi með Range Rover. Við erum miklu fjölbreyttari en það og kerfið er alls ekki að endurspegla það.“

Nálgast má hinsegin kosningastefnu Samfylkingarinnar á xs.is/hinsegin. Ísland á að vera leiðandi á heimsvísu í málefnum hinsegin fólks. Til þess þarf alvöru aðgerðir og skýra stefnu og Samfylkingin hefur bæði.