Sögulegt tækifæri
Samfylkingin er í sókn um allt land og meðbyrinn áþreifanlegur.
Við höfum rekið okkar baráttu heiðarlega út frá okkar hjartans málefnum, með það að leiðarljósi að lofa einungis því sem við erum viss um að við getum staðið við.
Við leggjum til skýrar og fjármagnaðar aðgerðir til að jafna kjörin í landinu. Við ætlum að styðja betur við barnafjölskyldur með norrænu barnabótakerfi, þannig að einstætt foreldri með tvö börn fengi 900 þúsund á ári, 77 þúsund á mánuði, og hjón á meðallaunum með tvö börn 650 þúsund krónur á ári. Þannig veitum við foreldrum meira andrými og fleiri börnum tækifæri til að blómstra.
Við leggjum áherslu á að leiðrétta kjör eldra fólks og öryrkja. Þetta eru hóparnir sem voru látnir sitja eftir og hafa ekki fengið nægar kjarabætur árum saman. Það gerum við með því að hækka elli- og örorkulífeyri sem og frítekjumörk, án þess að annað skerðist á móti.
Þá ætlum við að hefja kraftmikla sókn í loftslagsmálum, sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldar: raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. Til þess að hrinda þessu í framkvæmd þurfum við nýja nálgun og alvöru aðgerðir strax á öllum sviðum samfélagsins.
Þungamiðja þeirrar ríkisstjórnar sem Samfylkingin ætlar að leiða saman hverfist um þessi atriði: lífskjör venjulegs fólks og loftslagsaðgerðir til framtíðar.
Og við höfum efni á þessu. Með því að leggja hóflegan stóreignaskatt á allra ríkustu Íslendingana, þau sem eiga meira en 200 milljónir í hreina eign. Hækka veiðigjöld á stærstu útgerðirnar og herða skatteftirlit. Það er ekki einungis skynsamlegt að afla tekna með þessum hætti, heldur er það vilji almennings að stjórnvöld beiti sér gegn ójöfnuði í landinu.
Á laugardaginn gefst okkur tækifæri til að breyta.
Kjósendur hafa val um áframhaldandi dekur við sérhagsmuni eða alvöru kjarabætur fyrir almenning. Ætlum við að sætta okkur við kyrrstöðuna eða viljum við bretta upp ermar og breyta: taka forystuna í loftslagsmálum, efla heilbrigðisþjónustuna, styðja betur við barnafjölskyldur og létta eldra fólki og öryrkjum lífið?
Valkostirnir fyrir næstu fjögur ár eru mjög skýrir.
Nú er komið að þér.
Kjósum Samfylkinguna.