Fjórir nýir leikskólar í Reykjavík

Meirihlutinn í Reykjavík leggur metnað sinn í að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og stór skref verða stigin á næstu mánuðum með opnun fjögurra nýrra leikskóla við Eggertsgötu í Vesturbænum, Nauthólsveg í Vatnsmýri, á lóð Vörðuskóla við Barónsstíg og á uppbyggingarsvæði í Vogabyggð við Elliðaár.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi
Skúli Helgason Borgarfulltrúi og formaður skóla- og frístundaráðs

Leikskólarnir verða svokallaðar Ævintýraborgir í aðlaðandi einingahúsum sem hæfa vel nútíma leikskólastarfi og mæta kröfum um góðan aðbúnað barna og starfsfólks. Þessir fjórir leikskólar munu geta tekið á móti um 340 börnum og er stefnt að því að þeir verði allir opnaðir innan sex mánaða, frá nóvember og fram í mars 2022.

Opnun nýrra leikskóla er liður í aðgerðaáætluninni Brúum bilið sem hefur að markmiði að fjölga leikskólarýmum í Reykjavík svo bjóða megi börnum leikskólapláss þegar tólf mánaða fæðingarorlofi sleppir. Aðgerðaáætlunin var samþykkt í borgarstjórn fyrir tæpum tveimur árum og felur í sér byggingu nýrra leikskóla, viðbyggingar við starfandi leikskóla og viðbótardeildir í færanlegu húsnæði.

Þá er fjölgað rýmum í sjálfstætt reknum leikskólum. Ævintýraborgirnar eru enn einn valkostur í þessari fjölbreyttu flóru af úrræðum fyrir foreldra ungra barna í borginni.

Opnaðir á næstu sex mánuðum

Ævintýraborgin við Eggertsgötu verður með rými fyrir að minnsta kosti 80 börn á aldrinum tólf mánaða til sex ára og er stefnt að opnun þar í nóvember. Ævintýraborgin við Nauthólsveg mun rúma 100 börn á sama aldri og á að opna hana í desember.

Ævintýraborg við Barónsstíg verður opnuð í febrúar 2022 með rými fyrir 60 börn frá tólf mánaða til þriggja ára og loks verður Ævintýraborg í Vogabyggð opnuð í mars 2022 með rými fyrir um 100 börn frá tólf mánaða til sex ára.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir inn í alla þessa nýju leikskóla. Hægt er að sækja um á vef Reykjavíkurborgar. Þessi 340 nýju leikskólapláss munu koma að góðum notum fyrir foreldra í borginni en þetta er mesta fjölgun leikskólaplássa í Reykjavík í áratugi.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. sept.