Barnabækur, já takk

Skúli, borgarfulltrúi,

Ný menningarstefna Reykjavíkur var samþykkt í borgarstjórn sl. þriðjudag með áherslu á að gera líf borgarbúa innihaldsríkara, skemmtilegra og fjölbreyttara og treysta enn frekar umgjörð blómlegs lista- og menningarlífs í borginni.

Skúli Helgason Borgarfulltrúi og formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs

Menning er að gera hlutina vel, sagði Þorsteinn Gylfason heimspekingur, og það er göfugt leiðarljós hvort sem viðfangsefnið er að semja skáldsögu eða ljóð, setja upp leikrit, dansverk eða flytja tónlist. Barnamenning er sérstakt metnaðarmál og Barnamenningarhátíð er ein af helstu skrautfjöðrum í hatti menningarborgarinnar á hverju ári.

Barnabókamessa er haldin í samstarfi borgarinnar, Félags íslenskra bókaútgefenda og Bókmenntaborgarinnar, sem sameinast um að vekja athygli á nýútgefnum barna- og unglingabókum og skapa bókasöfnum leikskóla og grunnskóla tækifæri til að bjóða upp á spánýja titla til að örva bóklestur barna í skólum. Fyrst var blásið til Barnabókamessunnar árið 2017 og er hún haldin í fimmta sinn í dag og á morgun í Hörpu, einu helsta höfuðvígi menningarinnar í borginni. Það er sérstaklega ánægjulegt að bókasöfn í öðrum sveitarfélögum, þar á meðal á landsbyggðinni, hafa nýtt sér viðburðinn til að kynna sér rjómann af nýjum barna og unglingabókum og efla sín bókasöfn í þágu nemenda.

Borgin hefur veitt viðbótarfjármagni til skólabókasafna sinna til að bæta bókakost þeirra af þessu tilefni og það er sérstaklega gleðilegt að útlánatölur fram að Covid-faraldrinum sýndu að samstarfið hafði tilætluð áhrif með fjölgun útlána um rúmlega helming í grunnskólum að meðaltali og í einstökum skólum hafa útlán rúmlega tvöfaldast frá fyrstu Barnabókamessunni. Útlánatölur hafa lækkað aftur í faraldrinum, en það skýrist af verulegri röskun á starfsemi safnanna vegna sóttvarnaaðgerða.

Bókin stendur í harðri samkeppni við nýja samfélags- og myndmiðla um athygli barna og við þurfum öll að standa saman um að hvetja börn til bóklesturs.

Barnabókamessan opnar í Hörpu í dag og hvet ég alla stjórnendur og forsvarsmenn skólabókasafna í leik- og grunnskólum borgarinnar til að nýta sér þennan ánægjulega viðburð.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. nóv. 2021.