Heima í grænni borg

Heiða Björg

Á þessu kjörtímabili hafa árlega risið að meðaltali yfir þúsund íbúðir í Reykjavík. Íbúðir af öllum stærðum og gerðum, fyrir fólk á öllum aldri og í öllum tekjuhópum, enda hafa 12 þúsund nýir íbúar sest að í Reykjavík frá árinu 2017. Nýjustu tölur segja okkur að í uppbyggingu séu nú um 2.700 íbúðir og yfir 9.000 í skipulagsferli.

Heiða Björg Hilmisdóttir Varaformaður Samfylkingarinnar

Meirihluti borgarstjórnar hefur sett markið á sjálfbæra og kolefnishlutlausa borg fyrir alla, með iðandi mannlífi í fjölbreyttum hverfum með verslun og þjónustu í göngufæri og öflugum almenningssamgöngum og hjólastígum.

Til að ná því markmiði er ekki nóg að tryggja framboð af ódýrum lóðum, því markaðurinn mun ekki tryggja að í borginni rísi fjölbreyttir húsnæðiskostir í félagslega blönduðum hverfum.

Þess vegna skiptir skipulag borga svo miklu máli og samstarf við uppbyggingaraðila, meðal annars óhagnaðardrifin húsnæðisfélög.

Húsnæði fyrir öll

Félagsbústaðir, óhagnaðardrifið leigufélag í eigu Reykjavíkurborgar, á nú tæplega 3.000 leiguíbúðir víðs vegar um borgina. Þær standa fjölskyldum og einstaklingum undir tilteknum eigna- og tekjumörkum til boða, auk þjónustuíbúða og leiguíbúða fyrir fatlað fólk. Íbúðum í eignasafni hefur fjölgað um 300 á þessu kjörtímabili og fækkað hefur um 40 prósent á biðlista.

Úthlutað hefur verið um 500 íbúðum til tekjulágra, 200 þjónustuíbúðum fyrir aldraða, 190 fyrir fatlaða og 100 fyrir heimilislaust fólk. Í Reykjavík búa í dag 420 einstaklingar í húsnæði fyrir fatlað fólk, en of mörg bíða og því er hafin endurskoðun á uppbyggingar­áætlun.

Samfylkingin lofaði því í kosningum 2014 að framkvæmdir myndu hefjast við 2.500 til 3.000 íbúðir innan þriggja til fimm ára. Það gekk sannarlega eftir en 2017 voru hafnar byggingaframkvæmdir við 3.400 íbúðir.

Nú er stefnan sett með græna planinu á efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbæra Reykjavík. Uppbyggingu þéttrar borgar með sjálfbær hverfi sem stuðla að bættum lífsgæðum og lífskjörum okkar allra. Förum þangað saman!

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. nóv. 2021