Óvæntir glaðningar

Fimmtíu þúsund króna „óvæntur glaðningur“ til öryrkja rétt fyrir jólin dregur vissulega ekki úr samfélagslegum ójöfnuði til langframa, eins og nauðsynlegt er að gera, en hann gæti hins vegar skipt þúsundir heimila sköpum yfir hátíðirnar.

Ég tel almennt að þessi bótakerfi okkar ættu að vera í föstum skorðum og það ættu ekki að koma óvæntir glaðningar svona af og til,“ sagði fjármálaráðherra, þegar fréttamaður spurði hann hvort til greina kæmi að greiða öryrkjum 50.000 kr. skattfrjálsa aukagreiðslu fyrir jólin, rétt eins og gert var fyrir síðustu jól. Hann telji frekar nauðsynlegt að laga grunnkerfið. Forsætisráðherra tók í sama streng þegar ég ræddi málið við hana á Alþingi við upphaf vikunnar; það sé brýnast að ráðast í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.
Í grunninn er ég sammála ríkisstjórninni, að kerfið okkar eigi að vera nægilega sterkt til að ekki sé þörf á sérstökum viðbótargreiðslum af og til. Heildarendurskoðunar er þörf. Sitjandi ríkisstjórn hefur hins vegar haft fjögur ár til þess að endurskoða og bæta kerfið, auka lífskjör öryrkja og fátækra eldri borgara. Ef eitthvað er hafa þessir hópar dregist aftur úr lífskjörum launafólks ár eftir ár. Fjárlög eftir fjárlög.
Annað fólk norpar í biðröð
Stjórnvöld hafa ríku hlutverki að gegna í baráttunni gegn ójöfnuði; réttlátt skattkerfi, félagslegt húsnæði, barnabætur og öflugar almannatryggingar skipta máli. Mikil misskipting dregur úr verðmætasköpun, skerðir lífsgæði og rýfur samkennd.
Nú líður að jólum og eflaust finnst einhverjum klisjukennt að draga upp svipmynd af fólki sem mun áhyggjulaust raða villibráð og konfekti ofan í innkaupakerrur – á sama andartaki og annað fólk norpar í biðröð eftir bita af hamborgarhrygg og dós af grænum baunum hjá hjálparstofnun. En svona er þetta nú samt, því miður, enn þá hér á Íslandi.
Fimmtíu þúsund króna „óvæntur glaðningur“ til öryrkja rétt fyrir jólin dregur vissulega ekki úr samfélagslegum ójöfnuði til langframa, eins og nauðsynlegt er að gera, en hann gæti hins vegar skipt þúsundir heimila sköpum yfir hátíðirnar. Stjórnarandstaðan hefur því lagt fram þá tillögu á Alþingi að hann verði að veruleika. Og það minnsta sem þingmenn ríkisstjórnarflokkanna geta gert er að greiða þeirri tillögu atkvæði sitt.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. des. 2021.