Yngri börn komast í leikskóla

Börn voru að jafnaði 19 mánaða gömul þegar þau hófu dvöl í leikskóla í Reykjavík á þessu hausti. 

Skúli Helgason Borgarfulltrúi og formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs

Langflest leikskólabörn eru yngri en tveggja ára þegar þau byrja í leikskóla eða 78% og hefur hlutfallið hækkað verulega frá 2018 þegar innan við helmingur barna (46%) var á þeim aldri.  Nærri 40% barna eru yngri en 18 mánaða við inntöku í leikskóla.

Þetta var kynnt í skóla- og frístundaráði í vikunni með nákvæmari upplýsingum um inntökualdur barna.  Fyrri gögn höfðu gefið til kynna að inntökualdur barna væri mun hærri en þá var ekki búið að taka tillit til þess að mörg börn flytjast á milli leikskóla að ósk foreldra og mörg þeirrra eru fjögurra til sex ára sem vitanlega hefur veruleg áhrif á meðaltalið.  Þá eru flest ef ekki öll þau börn sem eru þriggja ára og eldri þegar sótt er um vistun nýflutt til borgarinnar frá öðrum sveitarfélögum eða löndum. 

90% í hverfisleikskóla

Mikill árangur hefur náðst í að tryggja börnum leikskóla í heimahverfi þeirra og eru nú um 90% barna í leikskóla í sínu hverfi.  Öllum börnum sem voru orðin 18 mánaða eða eldri þann 1. september var boðið pláss í leikskóla í haust en Brúum bilið aðgerðaáætlunin hefur m.a. það markmið að fjölga plássum sem tekin eru í notkun yfir vetrartímann og nýtast þá börnum sem fædd eru á síðari hluta ársins.  Á næsta ári fjölgar leikskólaplássum til muna og stefnir í að hægt verði að taka á móti 600 börnum til viðbótar í ný pláss á árinu.  Nýir leikskólar opna m.a. í Safamýri, við Kleppsveg, við Eggertsgötu, Nauthólsveg og víðar, leikskólar í Grafarvogi og Vesturbæ stækka og svo mætti áfram telja.  Með öllum þessum nýju plássum mun aldur barna við inntöku í leikskóla borgarinnar lækka verulega en takmarkið er að börn frá 12 mánaða aldri komist í leikskóla borgarinnar fyrir lok árs 2023.

Útdráttur: 87% barna eru í leikskóla í sínu hverfi.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. des. 2021.