Yngri börn komast í leikskóla í Reykjavík

Skúli, borgarfulltrúi,

Sífellt yngri börn eru að komast í leikskóla í Reykjavík í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar og meirihlutans um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Nýjar tölur sýna að hlutfall barna sem hefja leikskólagöngu sína í borginni fyrir 24 mánaða aldur hefur aukist úr 46% á árinu 2018 í 70% haustið 2021.  Börn eru að meðaltali 19 mánaða þegar þau hefja leikskólagöngu í Reykjavík og hefur sá aldur lækkað um heila fjóra mánuði frá 2018. Öll börn sem voru 18 mánaða eða eldri þann 1. september síðastliðinn fengu boð um leikskólavist. Staðan mun enn batna á komandi ári með mikilli fjölgun leikskólarýma sem mun gagnast ungbarnafjölskyldum í borginni vel.

Að minnsta kosti 7 nýir leikskólar opna í Reykjavík á næsta ári – þar af fjórir í svokölluðum Ævintýraborgum sem opna á fyrri hluta ársins.  Fyrstu tveir leikskólarnir opna í febrúar og mars miðað við nýjustu áætlanir. Hinir tveir eru svo væntanlegir í notkun um vorið. Þar með verða 340 ný leikskólapáss á fyrri hluta næsta árs fyrir börnin í Reykjavík. Til viðbótar munu opna nýir leikskólar við Safamýri, Kleppsveg og Bríetartún og fleiri spennandi kostir eru til skoðunar.  Alls stefnir í að plássum fjölgi um a.m.k. 600 á næsta ári og er það varlega áætlað.

Ævintýraborgirnar eru gæddar þeim eiginleikum að þær eru hreyfanlegar svo hægt væri að flytja þá og bregðast við þörfum mismunandi hverfa mun fyrr en áður var hægt ef aðstæður myndu breytast varðandi eftirspurn eftir leikskólarýmum. Húsnæði leikskólanna hæfa vel nútíma leikskólastarfi og mæta kröfum um góðan aðbúnað barna og starfsfólks.

Staðsetningarnar sem urðu fyrir valinu á næsta ári eru unnar út frá vel ígrundaðri þarfagreiningu um hvar í borginni þörfin er mest á fjölgun leikskólaplássa. Leikskólarnir verða við Eggertsgötu, Nauthólsveg, á lóð Vörðuskóla við Barónsstíg og á uppbyggingasvæðinu í Vogabyggð.

"Með þessari miklu aukningu á leikskólaplássum í Reykjavík erum við á góðri leið að mæta þörfum ungbarnafjölskyldna í borginni og uppfylla stefnu okkar og fyrirheit um að börn geti farið beint á leikskóla að fæðingarorlofi loknu. Stefnan gerir ráð fyrir að 12 mánaða börn komist að fyrir lok árs 2023 og við erum á fullri ferð að vinna að því marki." segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.  

Ævintýraborg, myndin er tölvuteikning af nýju leikskólunum í Reykjavík.