Gleðilegt nýtt ár

Kæru félagar, nú hefur nýtt ár gengið í garð eftir nokkuð viðburðaríka tíma í íslensku samfélagi og stjórnmálum.

Framundan eru ýmis stór verkefni og áskoranir á nýju ári aðrar en heimsfaraldur tengdar ójöfnuði, loftslagsbreytingum og tæknibyltingunni - og besta leiðin til að takast á við þær allar er með hugmyndir og lausnir jafnaðarmanna í öndvegi.

Þótt íhaldsflokkarnir þrír við stjórnvölinn hafi gefist upp á baráttunni fyrir réttlátara, sjálfbærra samfélagi höfum við í Samfylkingunni sannarlega ekki gert það.  Við mættum sterk til leiks á Alþingi í stafni stjórnarandstöðunnar. Þannig knúðum við fram jólabónus til öryrkja og aukin framlög til geðheilbrigðismála á lokametrum þingsins og erum hvergi nærri hætt.

Þá erum við stolt af öflugri forystusveit jafnaðarfólks í sveitarfélögum landsins. Okkar fólk hefur staðið vörð um þá gríð­ar­lega mik­il­vægu þjón­ustu sem sveit­ar­fé­lög veita, því miður oft við lít­inn skiln­ing rík­is­stjórn­ar­innar á mik­il­vægi sveit­ar­stjórn­ar­stigs­ins og áhrif sam­dráttar þar á mann­rétt­indi, heil­brigði, ofbeldi, menntun og atvinnustig um land­ið. Þau munu á nýju ári, sækja umboð til kjósenda til að gera nærsamfélag okkar allra jafnara, grænna og betra.

Það stefnir í spennandi starfsár hjá Samfylkingunni og við þurfum öll með. Við hvetjum þig því, kæri félagi, til að taka virkan þátt í grasrótarstarfi flokksins á komandi ári með aðildarfélögum, landshreyfingum, málefnanefndum eða þeim hætti sem hentar þér best. Auður Samfylkingarinnar er fólkið sem í henni starfar og sá kraftur og hugvit sem við í sameiningu búum yfir.

 

Kæru vinir,

Við sendum ykkur árnaðaróskir á nýju ári og lofum því að vinna af heilindum í þágu almannahags og sjálfbærrar framtíðar.

Logi Einarsson, formaður

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður