Gleðilegt nýtt kosningaár!

Ari, Guðmundur Ari, kraginn, seltjarnarnes, suðvestur,

Það er spennandi ár framundan þar sem meðal annars styttist í sveitarstjórnarkosningar sem verða haldnar sama dag og Eurovision, það verða alvöru partý það kvöld.

Guðmundur Ari Sigurjónsson Bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingar Seltirninga

Nú mun ekki fara framhjá okkur þegar flokkarnir byrja að velja fólk á lista sem svo munu bjóða fram krafta sína og berjast um hylli bæjarbúa og vil ég þakka öllum sem stíga skrefið að bjóða fram hugsjónir sínar og krafta. 

Það er að mörgu leiti sérkennilegt kjörtímabil að klárast sem einkennst hefur af fullmiklum átakastjórnmálum fyrir okkar litla sveitarfélag þar sem við íbúarnir erum sammála í langflestum málum. Við viljum búa hér í nánu og öflugu samfélagi í sterkri tengingu við náttúruna og sögu sveitarfélagsins. Við viljum að börnin okkar fái aðgang að fyrsta flokks menntakerfi sem hefjist að fæðingarorlofi loknu í gegnum öfluga leik-, grunn- og tónlistarskóla og að þau geti tekið þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi í fremstu röð. Við viljum að hér sé gott að eldast, að hér sé traust og öflug heimaþjónusta sem hjálpar okkur að búa sem lengst í eigin húsnæði og að fjölbreytt framboð sé af félagsstarfi og hreyfingu til að halda okkur líkamlega og andlega virkum á efri árum. 

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 var vandamálið orðið það augljóst að Sjálfstæðismenn misstu meirihlutastuðning við sínar hugmyndir um áframhaldandi taprekstur og skuldasöfnun bæjarsjóðs og varð til meirihluti fyrir því að hækka útsvarið til að snúa við taprekstri bæjarins, minnka skuldasöfnun og standa vörð um þjónustu við íbúa. Það er sanngjarnasta leiðin til að rétta af rekstur sveitarfélagsins þar sem við greiðum öll útsvarið í sameiningu í hlutfalli af tekjum okkar.

Í kosningabaráttunni framundan munu eflaust margir stíga á stokk og telja sig með einföldum hætti geta „hagrætt í þjónustu bæjarins“, „lækkað álögur á íbúar“ á sama tíma og þau munu brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og efla þjónustu við íbúa. Þetta er sama mantran og Sjálfstæðismenn hafa sagt allt kjörtímabilið en ekki gengið eftir. Það er ekki ábyrg fjármálastjórn að eyða umfram tekjur og stórauka skuldir vegna rekstrarhalla og það er ekki traustvekjandi stjórnmál að lofa að byggja sama nýja leikskólann í hverri einustu kosningabaráttu. Styðjum við góða frambjóðendur á komandi vikum en sýnum þeim líka aðhald um hvernig þau ætla að framkvæma kosningaloforð sín, hvernig á að fjármagna uppbyggingu og hvaða þjónustu á að skera niður til mæta skattalækkunum.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga