Þingflokkur Samfylkingarinnar fordæmir innrás Rússlands

Þingflokkur Samfylkingarinnar fordæmir innrás Rússlands í Úkraínu. Um er að ræða innrás í fullvalda lýðræðisríki sem er skýrt brot á alþjóðalögum.

Einörð afstaða Íslands og loforð um aukna mannúðaraðstoð skiptir miklu enda stefnir árásin lífi almennra borgara í Úkraínu í hættu og er mesta ógn við frið í Evrópu síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Alþjóðasamfélagið stendur nú frammi fyrir risastórri áskorun og það sem mun ráða úrslitum er samstaða og samvinna ríkja heims gegn innrás Rússa. Hernaðaraðgerðir Rússa snerta ekki eingöngu líf fólks í Úkraínu heldur ógna öllu öryggiskerfi Evrópu. Nauðsynlegt er að samkomulag náist milli NATÓ- og Evrópuríkja um mun afdráttarlausari aðgerðir til þess að stilla til friðar en þegar hafa verið kynntar. Þingflokkurinn hvetur íslensk stjórnvöld til að beita öllum tiltækum ráðum til að styðja við úkraínsku þjóðina á þessum ófriðartímum með mannúðaraðstoð og skorar á ríkisstjórnina að hefja tafarlaust undirbúning á móttöku flóttafólks frá Úkraínu til Íslands.