Samherji og þau sem hlýddu

„Ég þakka þeim sem hlýddu,“ sagði Jón Hjaltalín í Verbúðinni og hafði vart sleppt orðinu þegar það spurðist út að fjórir blaðamenn væru til lögreglurannsóknar vegna umfjöllunar um stærsta útgerðarfyrirtæki landsins.

Þetta eru blaðamennirnir sem höfðu fjallað um „skæruliðadeild Samherja“ og ófrægingarherferð hennar gegn fjölmiðlafólki, listamönnum og embættismönnum og gegn manninum sem ljóstraði upp um framferði fyrirtækisins í Namibíu, blaðamennirnir sem afhjúpuðu klíkuna sem vildi „stinga, snúa og strá salti í sárið“, sem plottaði um afskipti af kosningum hjá félagasamtökum og stjórnmálaflokki og gerði út leynilöggu sem njósnaði um og áreitti fréttamann. 

Lögreglan á Norðurlandi eystra ætlar að yfirheyra blaðamennina vegna gruns um brot gegn friðhelgi einkalífs sem fjallað er um í 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga. Lagaákvæðin tóku talsverðum breytingum í fyrra þegar samþykkt var lagafrumvarp til varnar kynferðislegri friðhelgi og gegn stafrænu kynferðisofbeldi. Þá voru einmitt settar inn málsgreinar um að ákvæðin ættu ekki við þegar háttsemi er réttlætanleg vegna almannahagsmuna, til dæmis þegar fluttar eru fréttir sem eiga erindi við almenning. Þessi varnagli er ekki síst mikilvægur í ljósi þess að með frumvarpinu varð sú breyting að brot gegn 228. og 229. gr. sæta nú ákæru óháð því hvort aðili sem misgert var við geri kröfu um það eða ekki. Breytingin var sannarlega ekki gerð til þess að auðvelda yfirvöldum að takmarka prentfrelsi og hafa afskipti af störfum blaðamanna. Í nefndaráliti um frumvarpið tók allsherjar- og menntamálanefnd sérstaklega fram að ákvæðin ættu ekki að hamla störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, „m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni“. 

Sjónarmiðin eru ekki sett fram að ástæðulausu heldur varða þau frumforsendur þess að frjáls blaðamennska geti þrifist: að heimildarmenn njóti verndar og blaðamenn geti unnið fréttir upp úr gögnum sem þeim berast og eiga erindi við almenning óháð því hvernig gagna var aflað. Þegar lögregluvaldi er beitt gegn blaðamönnum á hæpnum lagagrundvelli getur það haft alvarleg kælingaráhrif. Þetta virðist fjármálaráðherra eiga erfitt með að skilja. „Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar?“ spyr hann og stillir þannig málinu upp eins og verið sé að krefjast forréttinda fyrir fjölmiðlafólk. Fjársterk öfl, sem hafa hagsmuni af því að aðferðir skæruliðadeildar Samherja liggi í þagnargildi, kunna yfirvöldum eflaust bestu þakkir fyrir að atast í óþægilegum blaðamönnum en við hin verðum að brjótast út úr Verbúðinni og sameinast um að verja upplýsingarétt almennings og frjálsa fjölmiðlun. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar.