Endó: ekki bara slæmir túrverkir

Þórunn,  kraginn, banner,

Samtök um endómetríósu stóðu í gær fyrir gagnmerkri ráðstefnu sem bar yfirskriftina Endó – ekki bara slæmir túrverkir: Ákall einstaklinga með endómetríósu eftir skilvirkari þjónustu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Endómetríósa er sjúkdómur sem að minnsta kosti 10% einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama geta fengið. Lækning hefur ekki fundist en sjúkdómurinn getur valdið miklum og langvarandi þjáningum en einkenni eru mismunandi á milli einstaklinga. Það tekur að meðaltali 5 – 7 ár að greina endó.

Á ráðstefnunni í gær héldu sérfræðingar í fremstu röð erindi um birtingarmyndir sjúkdómsins og leitina að lækningu. Þar sögðu endókonur einnig frá samskiptum sínum við heilbrigðiskerfið. Því miður eru allt of mörg dæmi um skort á skilningi og þjónustu þegar endókonur leita sér lækninga. Viðþolslausar af verkjum þurfa þær oftar en ekki að fara á bráðamóttökuna og eru sendar heim með sterk verkjalyf. Lyfin lina þjáningarnar í stuttan tíma en annað breytist ekki.

Gleðilegri saga var sögð af konu sem fór í aðgerð hjá kvenlækni í Búkarest á síðasta ári. Hún hafði verið óvinnufær og á örorku í meira en áratug. Aðgerðin bar þann árangur að hún hefur öðlast starfsgetu aftur og farin að vinna úti. Ekki þarf að hafa mörg orð um bætt lífsgæði hennar.

Skurðaðgerðir á endókonum krefjast sérhæfingar og samvinnu sérfræðinga á mörgum sviðum heilbrigðisþjónustu. Miklu skiptir að sérhæft endóteymi hafi verið sett á fót á Landspítalanum og það hefur hjálpað mörgum konum en biðlistinn er langur og ekki auðsótt að komast á hann.

Það er dapurlegt og í raun óþolandi að heyra aftur og aftur sömu söguna frá stúlkum og konum á barneignaraldri sem leita til heilbrigðiskerfisins vegna endó-einkenna en fá hvorki hlustun né þjónustu við hæfi. Þetta verður að breytast og heilbrigðisstarfsfólk að vakna til vitundar um sjúkdóminn. Endó er nefnilega allt annað og miklu meira en slæmir túrverkir.

Þórunn Sveinbjarnardóttir er þingkona og endókona.