Stjórnmálaályktun  - jafnaðarmenn í forystu sveitarstjórna landsins

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar haldinn í Reykjanesbæ 12. mars 2022

Til þess að á Íslandi þróist og dafni öflugt velferðarsamfélag þurfa sveitarstjórnir að vera öflugar, því þar eru teknar flestar þær ákvarðanir sem hafa áhrif á okkar daglega líf og lífsgæði.  Gott samfélag verður til þegar allir íbúar fá tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu og enginn er skilinn eftir, þar sem íbúar upplifa frelsi og samstöðu. Þetta eru grunngildi Samfylkingarinnar. 

Áskorunum samtímans verður ekki mætt án aðkomu sveitarfélaga. Þau þurfa því að vera skipuð öflugu fólki með framtíðarsýn um það hvernig við búum landsmönnum heil­næmt umhverfi, jöfn tæki­færi og öflugt atvinnu­líf sem gengur ekki á nátt­úru­auð­lindir og saman verða sveitarfélögin að taka höndum saman gegn loftslagsbreytingum. Við setjum velferð fólks í fyrsta sæti, leggjum áherslu á menntun og velferð barna og höfum forystu um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði.

Eitt af mikilvægustu verkefnunum fram undan er að leiðrétta fjárhagslega skiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ósanngjörn skipting skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga er ógn við velferðarþjónustu og framþróun íslensks samfélags og við það getur Samfylkingin ekki unað.  Ríkisstjórnin getur ekki endalaust flutt verkefni til sveitarfélaga án þess að fjármagn fylgi. 

Sterkir framboðslistar Samfylkingarinnar hafa margir þegar litið dagsins ljós og aðrir verða kynntir á næstu vikum. Brýnt er að jafnaðarmenn verði forystuafl við myndun meirihluta í sem flestum sveitarfélögum landsins, þannig að hér þróist velferðarsamfélag byggt á jöfnuði og réttlæti.  Samfélag sem er sannarlega fyrir okkur öll.