Stjórnmálaályktun  - Samfylkingin fordæmir innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar haldinn í Reykjanesbæ 12. mars 2022

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fordæmir innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu, fullvalda lýðræðisríki. Evrópubúar horfast nú í augu við mestu stríðshörmungar í álfunni frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Rúmlega tvær milljónir manna eru á flótta og neyð almennings er mikil. Flokksstjórn styður fulla þátttöku Íslands í víðtækum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi og fagnar því að taka eigi á móti fjölda flóttafólks hér á landi. Samfylkingin lýsir sig reiðubúna að greiða fyrir meðferð mála á Alþingi og í sveitastjórnum landsins er lúta að móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Ekki er síður mikilvægt að koma ríkjum sem eiga landamæri að Úkraínu og hjálparsamtökum sem sinna mannúðaraðstoð til frekari aðstoðar. Stjórnvöld verða að styðja myndarlega við starf stofnana Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða rauða krossins sem hefur ríku hlutverki að gegna.

Í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands tökum við þátt í borgaralegu starfi Atlantshafsbandalagsins. Að sama skapi reynir nú á aðild Íslands að Schengen og aukið liðsinni við ytri landamæri Evrópusambandsins. Fordæmalausar efnahags- og viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi munu líka bitna á viðskiptahagsmunum okkar og efnahag landsins en þær fórnir eru hjóm eitt samanborið við það sem íbúar Úkraínu og rússneskur almenningur þarf að þola. Þessi barátta úkraínsku þjóðarinnar fyrir frelsi sínu og sjálfstæði krefst staðfestu og úthalds í nánu samstarfi við vinaþjóðir.

Hlutverk evrópusambandsins í varnar- og öryggismálum hefur stækkað í kjölfar innrásarinnar, í þeim tilgangi að tryggja betur lýðræði og frið í Evrópu. Hagsmunir Íslands eiga því sem aldrei fyrr samleið með Evrópusambandinu. Flokksstjórn Samfylkingarinnar leggur þunga áherslu á að hefja aðildarviðræður á ný við ESB að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.