Treystum þjóðinni

Samfylkingin, Viðreisn og Píratar leggja til að þjóðin fái að svara eftirfarandi spurningu játandi eða neitandi í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir árslok: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“
Flokkarnir hafa lagt fram þingsályktun þess efnis á Alþingi, því við teljum aðildarviðræður við Evrópusambandið varða grundvallarhagsmuni þjóðar, og mikilvægt að kalla eftir afstöðu hennar.
Viðbrögð stjórnarliða við auknum áhuga almennings á Evrópusamstarfi og umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslu bera hins vegar þess merki að þeir óttist að spyrja þjóðina um framhald viðræðna. Líklega vegna þess að þeir eru hræddir við niðurstöðuna; hræddir við að þjóðinni gæti þótt það spennandi að taka þátt í friðarbandalagi vinaþjóða, sem hefði auk þess afar jákvæðar efnahagslegar afleiðingar og bætt lífskjör í för með sér.
En þótt Sjálfstæðismönnum kunni að þykja „ósmekklegt“ að ræða þetta risastóra hagsmunamál opinberlega nú þegar breytt heimsmynd blasir við, og forsætisráðherra telji ástæðulaust að spyrja þjóðina þar sem ríkisstjórnarflokkarnir séu á móti aðild, kalla nýjar áskoranir og breytt heimsmynd á aukna samvinnu lýðræðisþjóða; samvinnu um grunngildi, menningu og efnahag.
Evrópusambandið leggur áherslu á viðskiptafrelsi, lýðræði og sjálfbærni, en það hefur einnig tekið sér vaxandi hlutverk í varnar- og öryggismálum í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Ísland hefur mikla hagsmuni af því að taka þátt í slíku samstarfi og eiga sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar.
Það er óábyrgt af ríkisstjórnarflokkunum að útiloka með öllu samstarf sem getur aukið velsæld og öryggi landsmanna – án þess að þjóðin fái nokkra aðkomu að þeirri ákvörðun.
Treystum þjóðinni og kjósum um framhaldið!
Greinin birtist í Fréttablaðinu 25. mars 2022.