Á réttri leið

Helstu áskorunum samtímans verður ekki mætt án kröftugrar aðkomu borga. Þar má nefna loftslagsmálin, baráttuna fyrir jöfnuði og jöfnum tækifærum fólks, jafnrétti kynjanna, móttöku flóttafólks, baráttu gegn ofbeldi og margt, margt fleira.

Heiða Björg Hilmisdóttir Borgarfulltrúi og formaður Velferðaráðs Reykjavíkurborgar

Öll þessi verkefni verða best unnin með jafnaðarhugsjónina sem leiðarljós enda er það varla tilviljun að öllum framsæknustu borgum Evrópu er stýrt af jafnaðarfólki. Þar á meðal hefur Reykjavík verið og verður að vera áfram!

Við í Samfylkingunni höfum sannkallaða ástríðu fyrir borginni okkar og framþróun hennar og hvernig við getum bætt daglegt líf borgarbúa. Hvernig við getum stuðlað að heilbrigði okkar allra, öryggi og vellíðan. Við viljum skapa betri borg og gott samfélag til framtíðar fyrir okkur öll og komandi kynslóðir. Sem leiðandi afl í höfuðborginni mun Samfylkingin halda áfram að vera óhrædd við að setja stór og mikilvæg mál á dagskrá í íslensku samfélagi. Tala fyrir þeim og framkvæma, því þó að margt af því sem við jafnaðarfólk höfum sett á dagskrá á vettvangi borgarstjórnar síðustu ár hafi hlotið háværa gagnrýni í upphafi er það nú eitthvað sem er almenn skoðun og viðurkennt sem mikil framfaraskref. Ég get nefnt uppbyggingu leikskóla, kynjaða fjárhagsáætlun, hreinsun strandlengjunnar, þéttingu byggðar, móttöku flóttafólks, framtíðar skipulag í Vatnsmýri, þjónustu við heimilislaust fólk, styttingu vinnuvikunnar og margt, margt fleira. Með verkum okkar í Reykjavík höfum við breytt Íslandi til betri vegar – og við viljum og þurfum að halda áfram á sömu braut.

Gott samfélag verður til þegar allir íbúar fá tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu og enginn er skilinn eftir. Þar sem íbúar upplifa frelsi og samstöðu. Þetta eru grunngildi Samfylkingarinnar. Þetta er verkefni okkar jafnaðarfólks að tryggja að við séum öll í sama samfélagi – því sundrað samfélag er ógn við öryggi og farsæld okkar allra. Við þurfum öll að tilheyra – öll að skipta einhvern máli.

Við getum sannarlega verið stolt af verkum okkar í Reykjavík á síðustu árum. Reykjavík er öflugasta sveitarfélagið í velferðarmálum og hvers kyns félagslegri uppbyggingu og þjónustu. Húsnæðisuppbygging hefur verið hlutfallslega meiri í Reykjavík en annars staðar á landinu og hér er að byggjast upp húsnæði fyrir alla hópa samfélagsins.

Reykjavík dregur vagninn í loftslagsmálum og stefnir hraðbyri á að verða kolefn­is­hlut­laus, blómleg og heil­brigð borg. Við höfum nánast útrýmt launamun kynjanna og við vorum í forystuhlutverki með verkalýðshreyfingunni við styttingu vinnuvikunnar. Við höfum innleitt nýja hugsun í skipulagsmálum og samgöngum, sem er grunnurinn að sjálfbærri uppbyggingu framtíðarinnar. Borgarlína og þétting byggðar eru í raun, forsendur kolefnishlutleysis og heilnæmara borgarumhverfis, lykillinn að framtíðinni, rétt eins og hreinsun strandlengjunnar og uppbygging leikskólanna voru þegar Ingibjörg Sólrún stýrði borginni inn í nýja tíma.

Reykjavík er á réttri leið, undir forystu Samfylkingarinnar hefur Reykjavík náð góðum árangri því við setjum velferð fólks í fyrsta sæti og við vitum að velferð eins er velferð allra.