Gott má bæta!
Eitt mikilvægasta hlutverk hvers sveitarfélags er að efla, styðja og tryggja eftir megni möguleika allra íbúa sinna til sjálfstæðs lífs, fjárhagslegs og félagslegs öryggis.
Þetta verkefni verður ekki unnið í eitt skipti fyrir öll, heldur krefst það stöðugrar endurskoðunar og árvekni.
Samfélagslegar aðstæður, lagaumhverfi og kröfur breytast. Því fylgja nýjar áskoranir og tækifæri til að þróa og efla starf og þjónustu í þágu íbúa. Því er svo nauðsynlegt að vera sífellt tilbúinn að breyta til, fara nýjar leiðir eða betrumbæta það sem vel hefur gengið.
Regluverk þarf að styðja þjónustu við alla borgarana, en standi ekki í vegi hennar.
Framfarahugsun þarf því alltaf að vera ríkjandi þegar kemur að þjónustu við alla íbúana, stöðnun skapar misrétti og þá glatast einnig tækifæri til jákvæðra breytinga.
Allir leggja í púkkið
Samfélag fyrir alla er þar sem mannréttindi gegna lykilhlutverki. Það þarf að skapa aðstæður og tækifæri til að allir geti eflt færni sína, öðlast sem mest sjálfstæði og verið virkir í samfélagslegri þátttöku. Lifandi og framsækið samfélag þarf á öllum að halda, þar þurfa allir að hafa tækifæri til að leggja sitt af mörkum eftir getu og áhuga.
Þannig verða mestu framfarirnar þar sem flestir leggja sitt í púkkið.
Alls konar frístundatilboð eru nauðsynleg. Aukið val allra á fjölbreyttum frístundatilboðum og til atvinnuþátttöku er eitt af grundvallaratriðum þess að auka virkni einstaklinga. Því er mikilvægt að bjóða upp á atvinnu og tækifæri sem henta hverjum og einum til þess að þeir geti starfað úti á vinnumarkaðnum, hvort heldur væri hjá bæjarfélaginu, stofnunum þess eða hjá almennum fyrirtækjum til að auka virkni og þátttöku. Áframhaldandi samstarf um fræðslutilboð frá Símenntunarmiðstöð Vesturlands mun veita tækifæri til aukinnar virkni, námskeiða og frístundatilboða.
Allir með!
Við á Akranesi búum við góðar aðstæður og Samfylkingin hefur verið í farsælu meirihlutasamstarfi á þessu kjörtímabili. Við sem erum í framboði fyrir Samfylkinguna viljum halda áfram því starfi og gera bæinn okkar enn betri, en um leið styrkja það sem við höfum, sækja fram og gera öllum þegnum í samfélaginu fært að lifa sem innihaldsríkustu lífi. Kjósandi góður settu því X við S í kosningunum 14. maí, fyrir Skagann að sjálfsögðu.
Kristinn Hallur Sveinsson
Höfundur er formaður velferðar- og mannréttindaráðs og skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akranesi fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022.
Greinin birtist í Skessuhorni 27. apríl 2022.