HVAÐ ER FJÁRHAGSLEGUR STÖÐUGLEIKI?

Þegar rætt er um fjárhagslegar breytur þá sýnist sitt hverjum, í hvað eigi að horfa. Þó eru tölulegar staðreyndir til staðar og getur hver fyrir sig lesið í það á sinn hátt.

Verkefnum sveitarfélaga hefur verið að fjölga og kallað er á aukna þjónustu; til dæmis með breytingum á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, svokallaðra farsældarlaga en einnig með heildrænni nálgun þjónustu við einstaklinga svo sem með skóla án aðgreiningar. Á sama tíma þá eykst fjárframlag frá ríki ekki í samræmi við þessar auknar kröfur og er kostnaður við setningu farsældarlaganna verulega vanmetinn samkvæmt sérfræðingum.

Þessar samfélagslegu breytingar eru  jákvæðar að mati S-listans en að sama skapi er ekki hægt að loka augum fyrir því að aukið þjónustuhlutverk sveitarfélaga kallar á frekari útgjöld. Þessi þróun hefur átt sér stað undanfarinn áratug hið minnsta.

Þrátt fyrir það er Norðurþing í sókn. Engin ný langtímalán voru tekin á síðasta ári og allir sjóðir sveitarfélagsins skiluðu betri afkomu árið 2021 en áætlað var.

  • A - hluti sveitarfélagsins skilaði 58 milljónum meira í afgang en áætlað var.
  • B - hluti sveitarfélagsins skilaði 10 milljón krónum meira í afgang en áætlað var. 
  • Hafnarsjóður var rekin með 12 milljón kr. minni halla en áætlað var.

Á kjörtímabilinu var rekstri Leigufélagsins Hvamms ehf. snúið við með umdeildri ákvörðun um að selja íbúðir sem losnuðu af náttúrulegum orsökum. Sú ákvörðun skilaði félaginu í einungis fimm milljón króna halla árið 2021 en áætlaður halli var 30 milljónir. Þá má horfa til þess að samkvæmt reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga var skuldahlutfall Norðurþings 77% í árslok 2021 en í árslok 2014 stóð þetta sama viðmið í 160%. 

Slíkur viðsnúningur er eftirtektarverður og fleiri tölur er hægt að finna í ársreikningum og góðri samantekt fráfarandi sveitarstjóra sem S-listinn þakkar gott samstarf á líðandi kjörtímabili.

Með svona grunn er svo sannarlega ástæða til að blása til sóknar, skipuleggja til framtíðar, halda áfram að styðja við ferðaþjónustuna, ráða verkefnastjóra til að halda áfram uppbyggingu grænna iðngarða á Bakka og horfa til fjölþættrar samsetningu atvinnugreina s.s. í vinnslu þara, hverskyns fiskeldis og aðstöðusköpun fyrir nýsköpun.

Verum samfó til framtíðar!

Benóný  Valur er oddviti S-lista í Norðurþingi

Silja skipar 16. sæti listans