Það er gott að búa í Norðuþingi

Eitt helsta umhugsunarefni og áskorun sveitarfélaga á landsbyggðinni síðustu áratugi hefur verið hvernig sé hægt að búa þannig um hnútanna að ungt fólk, sem sækir sér nám og fjölbreyttari atvinnumöguleika til höfuðborgarsvæðisins, geti og vilji flytja aftur í heimahagana. 

Umræðan síðastliðin ár hefur oft á tíðum verið þannig að ungt fólk sem kýs að flytja út á land geri það vegna þess að það sé að flýja ófremdarástand á höfuðborgarsvæðinu. Slík orðræða er leiðinleg og arfavitlaus. Helsta ástæðan fyrir því að ungt fólk kýs að flytja aftur í heimahagana er nefnilega sú að það er frábært að búa út á landi. Kyrrðin, róin, öryggið og nándin við náttúruna gerir það að verkum að það eru fáir staðir í heiminum betur til þess fallnir að ala upp börn og lifa góðu fjölskyldulífi fram á fullorðins aldur. Þá eru allir innviðir og samgöngur á mun betri stað en þau voru fyrir áratugi síðan.

Þar hefur tekist vel til í Norðurþingi og er grunnurinn góður til framtíðar. Í Norðurþingi eru starfræktir góðir skólar þar sem metnaðarfullt og öflugt starfsfólk vinnur sem er umhugað um velferð barna sveitarfélagsins. Norðurþing hefur uppá að bjóða fjölbreytt íþrótta- og menningarstarf fyrir bæði börn og fullorðna. Þá má nefna lifandi mannlíf, fjölbreytta flóra veitingastaða og kaffihúsa svo ekki sé talaði um eitt besta brugghús landsins. Stórbrotin náttúra, allt frá víðáttu Melrakkasléttunnar til Ásbyrgis, Dettifoss og allir hvalirnir á Skjálfandaflóa gera sveitarfélagið að útivistarparadís bæði fyrir heimamenn og ferðalanga. Þá eru innviðir sveitarfélagsins sterkir þar sem samgöngur og fjarskipti hafa verið stórefld síðastliðin ár. Þá liggja gríðarleg tækifæri í áframhaldandi atvinnuuppbyggingu og atvinnuþróun sem er grundvöllur þess að byggja upp og viðhalda sterku og fjölbreyttu samfélagi til framtíðar. Allt þetta ásamt mannauðnum sem hér er til staðar gerir það að verkum að Norðurþing er tilvalið fyrir fólk og atvinnurekendur sem vilja nýta sér þau tækifæri sem felast í störfum án staðsetningar. 

Því miður hefur oft hefur neikvætt, leiðinlegt og misgáfulegt umtal um sveitarfélagið okkar fengið að grassera og ratað í misvandaða miðla á netinu. Þetta umtal endurspeglar engan veginn upplifun mína af sveitarfélaginu og ég leyfi mér að fullyrða að meirihluti íbúa Norðurþings séu mér sammála. Mín tilfinning og upplifun eftir mín eftir mörg samtöl við íbúa sveitarfélagsins er nefnilega sú að hér sé frábært að búa, lifa og starfa. Hér býr nefnilega mikið af jákvæðu, skemmtilegu og lífsglöðu fólki sem gerir samfélagið okkar betra og skemmtilegra. Byggjum á þessum sterka grunni til framtíðar því jákvæðni er smitandi, dreifum henni.

Höfundur er lögfræðingur hjá persónuvernd og skipar 3. sæti S-lista Samfylkingar og annars frjálshyggjufólks í Norðurþingi.