Aukum þátttöku barna og ungmenna í frístundastarfi

Hafnarfjörður er íþrótta- og tómstundabær og það má fullyrða að fá bæjarfélög státa af jafn fjölskrúðugri menningu í málaflokknum.

Bæjarfélagið styður við ungmenni með niðurgreiðslum á þátttöku í íþróttum og tómstundum í formi frístundastyrkja. Það voru jafnaðarmenn í Hafnarfirði sem komu á þessu kerfi í Hafnarfirði árið 2002 og þar með varð Hafnarfjörður fyrsta sveitarfélagið til að byrja með frístundastyrki. En við getum gert betur og aukið þátttökuna meira. Þátttaka í íþróttum og tómstundum er besta forvörnin sem völ er á og afar mikilvægt að börn og ungmenni taki þátt.

Bjóðum yngri börnum upp á frístundastyrk

Samfylkingin vill ýta undir heilsusamlega lífshætti með því að auðvelda fólki á öllum aldri hreyfingu og hollt mataræði og stuðla að virkri þátttöku allra í samfélaginu. Það er stefna Samfylkingarinnar að lækka aldur þeirra sem njóta frístundastyrkja og færa aldurinn niður í fimm ár. Kostnaðurinn af því er óverulegur fyrir bæjarfélagið og í raun fjárfesting til framtíðar í unga fólkinu okkar. Félögin sem bjóða upp á skipulagðar tómstundir og íþróttir hafa lagt mikinn metnað síðustu ár í að bjóða börnum á leikskólaaldri upp á fjölbreytt val og um helgar streyma foreldrar í mannvirki bæjarins til að taka þátt.

Grunnurinn að réttlátu samfélagi er jöfnður og góð velferðarþjónusta

Bæjarfélagið státar af íþróttamannvirkjum sem eiga vart sinn líka í öðrum bæjarfélögum og af því getum við verið stolt og að fylla þessi mannvirki ungum börnum og foreldrum þeirra stuðlar að heilsusamlegra samfélagi. Það er ljóst að hægt er að efla þessa þátttöku með því að lækka aldur barna sem njóta frístundatyrkja niður í fimm ár en margar fjölskyldur myndu taka því fagnandi, einkum og sér í lagi efnaminni fjölskyldur. Jöfnuður og góð velferðarþjónusta fyrir alla er grunnurinn að réttlátu samfélagi og lækkun aldurs þeirra sem njóta frístundatyrkja er hluti af þeirri stefnu.

Sigrún Sverrisdóttir,
skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar.

Steinn Jóhannsson,
skipar 21. sæti á lista Samfylkingarinnar.