„Það leggur á stað með tárum“

Logi

Það á að vera ljúf skylda okkar að taka sómasamlega á móti fólki í neyð, ekki bara til að það komist í heila höfn og nái að byggja upp líf sitt heldur líka til að standa undir nafni sem samfélag.

Logi Einarsson Formaður Samfylkingarinnar

Í Brekkukotsannál Halldórs Laxness sem er látinn gerast undir lok 19. aldarinnar segir: „Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land; það leggur á stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbygð af því svo illa er að því búið að börn þess ná ekki þroska heldur deya.“

Að rífa sig og sína upp og fara á vergang

Þessi klausa minnir okkur á sögu okkar Íslendinga sem einkennist af flótta undan náttúruhamförum, örbirgð og vonlausum aðstæðum. Sum okkar flýðu landshluta á milli – önnur alla leið til Ameríku þar sem margvísleg örlög biðu fólks. Við vitum að ærnar ástæður þarf til að fólk rífi sig og sína upp með rótum til að fara á vergang í heiminum og það er skylda okkar að búa fólki sem hingað leitar þær aðstæður að það geti komið undir sig fótunum og byggt upp tilveruna á ný.

Útlendingastefna stjórnvalda miðar að því að gera fólki eins erfitt um vik og mögulegt er að setjast hér að. Fólk sem hingað leitar frá stríðshrjáðum svæðum og óbyggilegum er sent strax og hægt er til þess Evrópuríkis sem fyrst veitti því hæli, iðulega Grikklands, jafnvel þó að aðstæður þar séu með öllu óboðlegar. Þessi stefna er meðal þess sem hörðust gerist á Norðurlöndunum, og er í engu samræmi við reynslu okkar af móttöku flóttamanna, sem hefur verið góð og hefur auðgað íslenskt þjóðlíf verulega.

Það á að vera ljúf skylda okkar

Með orðagaldri sínum tekst Halldóri Laxness að draga fram kjarnann í hlutskipti þeirra sem leita hælis í okkar landi. Þetta snýst um að gera börnum mögulegt að ná þroska. Það á að vera ljúf skylda okkar að taka sómasamlega á móti fólki í neyð, ekki bara til að það komist í heila höfn og nái að byggja upp líf sitt heldur líka til að standa undir nafni sem samfélag.