Ungt fólk og framtíðin
Fyrir kosningar koma allir flokkar fram með fallega stefnu og flott loforð þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. En hvað svo?
Stjórnmál geta verið flókin og það þarf stóran og fjölbreyttan hóp til að standa á bak við stjórnmálaflokk. En á bak við hvern flokk er einnig pólitísk stefna. Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur. Sú pólitíska stefna hefur verið ríkjandi á Norðurlöndunum og byggt upp bestu velferðarsamfélög í heimi. Það er það sem við viljum gera hér, byggja upp sterkt velferðarsamfélag þar sem allir fá að njóta sín.
Atvinnutækifæri fyrir ungt fólk
Akranes er frábær staður til að alast upp. Hér er stutt í alla þjónustu, auðvelt að hjóla á milli staða, öflugt íþrótta og tómstundastarf og margar náttúruperlur, leik-og íþróttavellir þar sem við vorum tímunum saman sem börn. En eftir framhaldsskóla lendum við á vegg. Atvinnutækifæri eru fá og til að sækja háskólanám förum við mörg hver úr bænum. Við í Samfylkingunni viljum fjölga atvinnutækifærum fyrir fólk í námi, byggja húsnæði sem hentar fólki í námi og auðvelda Skagamönnum sem flytja suður í háskóla að koma hingað eftir útskrift og festa rætur. Við höfum lagt áherslu á nútímalega uppbyggingu atvinnulífs í sátt við umhverfið og viljum halda áfram að efla tækifæri til nýsköpunar og þróunarstarfs, þannig að Akranes verði frábær kostur fyrir ungt, vel menntað fólk til að búa og starfa.
Kjósið flokk sem þið treystið í gjörðum frekar en orðum.
Með Samfylkinguna í meirihluta hefur verið gríðarleg uppbygging á fjölbreyttu húsnæði, leiguhúsnæði og húsnæði fyrir fyrstu kaup á Akranesi. Samtals eru þetta um 600 íbúðir um allan bæ sem eru ýmist komnar í notkun eða eru í byggingu og stór hluti þeirra eru íbúðir sem henta vel sem fyrsta eign á húsnæðismarkaði. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa á þessum tíma lagt mikla áherslu á að bærinn bjóði upp á fleiri einbýlishúsalóðir, sem varla væri hægt nema að fækka öðrum ódýrari húsnæðiskostum á móti. Sjálfstæðisflokkurinn vildi sem sagt frekar einhæft húsnæði í stað fjölbreytta húsnæðisins sem núverandi meirihluti lét byggja.
Þeir þingmenn sem hvað harðast berjast fyrir hagsmunum ungs fólks um þessar mundir heita Jóhann Páll Jóhannsson (fæddur 1992) og Kristrún Frostadóttir (fædd 1988), bæði þingmenn Samfylkingarinnar. Kristrún hefur meðal annars bent á að húsnæðisverð hefur á síðustu 25 árum hækkað 40% meira en ráðstöfunartekjur fólks. Þessi hækkun kemur næstum tvisvar sinnum harðar niður á fólki undir fertugu, því það er hópurinn með hæstu skuldirnar. Ríkisstjórnin, með Sjálfstæðisflokkinn í fjármálaráðuneytinu, hefur beint ungu fólki í mikla skuldsetningu fyrir dýru húsnæði og nú þegar vextir eru farnir að hækka kemur það þyngst niður á yngsta fólkinu. Á sama tíma gerir ríkisstjórnin nákvæmlega ekkert til að halda aftur af verðhækkunum á húsnæði.
Þá er líka rétt að rifja upp, að fyrir síðustu Alþingiskosningar var eitt skýrasta stefnumál Samfylkingarinnar að við vildum stórauka barnabætur til fjölskyldna. Á öllum hinum Norðurlöndunum eru barnabætur hugsaðar sem þátttaka samfélagsins í því mikilvæga verkefni að ala upp næstu kynslóðir íbúa. Á Íslandi hefur Sjálfstæðisflokknum hins vegar tekist að gera barnabæturnar að fátæktarstyrk, sem er alls ekki rétta hugsunin á bak við þær. Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði þessum hugmyndum Samfylkingarinnar vegna þess að þær átti að fjármagna með aukinni skattheimtu á ríkasta 1% landsmanna. Það gátu Sjálfstæðismenn ekki hugsað sér og þannig vernduðu þeir allra ríkasta fólkið á landinu með því að halda skattbyrðunum frekar á unga fólkinu með börnin.
Akranes, samfélag fyrir alla
Undir stjórn Samfylkingarinnar er mikil uppbygging í gangi á Akranesi. Við erum að stækka íþróttamiðstöðina á Jaðarsbökkum, bygging er að hefjast á nýju húsnæði fyrir Arnardal og Hvíta húsið, nýjar götur hafa verið lagðar og ný hverfi skipulögð, við höfum bætt göngu- og hjólastíga og svo mætti lengi telja. Bygging nýs leikskóla er langt komin og strax í kjölfarið ætlar Samfylkingin að hefja undirbúning að næsta leikskóla sem verður byggður á Neðri-Skaga. Samfylkingin vill halda þessari uppbyggingu áfram og hafa alltaf lýðheilsumarkmið í fyrirrúmi við allar ákvarðanir um skipulag og framkvæmdir til að tryggja lífsgæði íbúanna.
Valið er einfalt, vilt þú sem íbúi í okkar frábæra bæjarfélagi stoppa þessa uppbyggingu í nafni frelsis einstaklingsins eða halda henni áfram í nafni samfélagsins?
xS- Að sjálfsögðu!
Frambjóðendur Samfylkingarinnar á Akranesi
Benedikt Júlíus Steingrímsson 7. sæti
Auðun Ingi Hrólfsson 9. sæti
Margrét Helga Ísaksen 12. sæti