Við unga fólkið og kosningar

Kæru jafnaldrar.

Núna á laugardaginn eru kosningar, og ekki bara hvaða kosningar sem er, heldur eru þær mjög mikilvægar og skipta sköpum fyrir okkar framtíð hér í Reykjavík.

Ég er að sjálfsögðu að tala um sveitarstjórnarkosningarnar. Vissulega svolítið langt orð sem getur virkað fráhrindandi, ég veit.

Það er nefnilega þannig að við unga fólkið eigum það til að mæta síður á kjörstað en foreldrar okkar og þau sem eldri eru. Það er margt í gangi en það er samt sem áður svo mikilvægt að nýta kosningaréttinn okkar. Við verðum að taka okkur á, mæta, og kjósa!

Því með því höfum við áhrif á það sem koma skal, við höfum okkar atkvæði og við verðum að nýta það þar sem um framtíðina okkar og velferð er að ræða.

Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur sem leggur mikla áherslu á jöfnuð í samfélaginu óháð kyni, húðlit, stöðu innan samfélagsins, uppruna, fötlunar, kynhneigðar og fl.

Samfylkingin í Reykjavík vill búa til grænni, loftslagsvænni og bara almennt skemmtilegri borg þar sem Borgarlína, almenningssamgöngur, hjólandi og gangandi eru í fyrirrúmi. Við ætlum að byggja upp íbúðir á eftirsóttum svæðum í borginni af enn meiri krafti en áður, og þá sérstaklega viljum við leggja áherslu á húsnæði fyrir ungt fólk, fyrstu kaupendur og tekjulægri hópa.

Síðustu ár hafa verið byggðar fleiri íbúðir en nokkurn tímann áður í Reykjavík (meira en 1.000 íbúðir á ári) en Samfylkingin ætlar að byggja 2.000 íbúðir árlega á næsta kjörtímabili til að mæta þeirri gríðarlegu þörf sem er á húsnæðismarkaðnum í dag.

Þetta eru stór málefni sem okkur unga fólkið varðar.

Ég hef gríðarlega trú á flokknum og veit að þetta eru ekki bara innantóm loforð. Það hreinlega er ekki í boði þar sem svo margt er í húfi.

Mætið á kjörstað (hægt að sjá hér hvar þú átt að mæta www.reykjavik.is/kosningar), kjósið, og ef þið viljið sjá Reykjavík blómstra áfram- setjið þá x við S.

Höfundur skipar 20.sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík